Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 8. október 2002 kl. 10:16

Sigríður Jóhannesdóttir: Atvinnuleysi eykst

Í lok ágúst s.l. hélt þingflokkur Samfylkingarinnar fund á Suðurnesjum og hélt af því tilefni opinn fund um atvinnuástand á svæðinu en þá hafði fjölgað ískyggilega á atvinnuleysisskrá á svæðinu frá árinu á undan eða frá því að 35 einstaklingar væru skráðir í lok ágúst 2001 voru þeir orðnir 189 þann 17. ágúst síðastliðinn. Enn hefur sigið á ógæfuhliðina og í gær voru 254 á skránni og því miður ekki bjartar horfur á að þar yrði mikil fækkun á næstunni.Til dæmis munu Byko-hurðir og gluggar sem hafa rekið verksmiðju í Njarðvík þar sem 35 manns hafa haft atvinnu vera að flytja sína starfsemi til Eystrasaltslandanna og fregnir berast af ágætis útgerðarfyrirtækjum sem hyggjast segja upp sínu fólki og leigja kvótann. Það verður að viðurkennast að ekki hefur heyrst af fyrirtækjum sem hyggist ráða fólk svo einhverju nemi á þessu svæði á næstunni. Það eru nýmæli að á atvinnuleysisskránni í haust hefur verið hópur af sjómönnum sem koma frá útgerðum sem ekki eiga kvóta og hafa þurft að leigja þá til sín. Nú bregður svo við að verð á leigukvóta er með þeim hætti að slík útgerð stendur ekki undir sér.
Við sem höfum talað fyrir fyrningu á eignarkvóta svokölluðum viljum benda á þegar slík dæmi blasa við að eignarhaldsfélög eins og til dæmis Eimskip eru að sanka að sér öllum kvóta landsmanna til að raka öllum blátittum saman í nógu risavaxin troll svo að "hagkvæmnin" verði nógu mikil, að það væri nú meira vit í að það væri ríkissjóður sjálfur sem byði út þann kvóta sem losnar við fyrninguna svo leigugjaldið mætti nota til þess að styrkja velferðarkerfið.
Ég hefi líka horft á það með vaxandi hryllingi hvernig því fólki sem vinnur á Flugvellinum er haldið í stöðugu óöryggi með sína stöðu. Þetta á ekki síst við um konur og má til dæmis minna á að konur úr Flugeldhúsi eru látnar fara á atvinnuleysisbætur 2-3 mánuði á hverju ári en bent á að þær þurfi að vera tilbúnar í útköll þegar þörf er á. Myndu yfirmenn Flugleiða láta bjóða sér slíkt? Þarna er um mjög hæfan og sérhæfðan starfskraft að ræða og hlýtur að vera hægt að finna leiðir hjá svo stóru og öflugu fyrirtæki til að auka starfsöryggi fólks jafnvel þó það kosti að eitthvað þurfi að sníða af yfirbyggingunni.
Í mínum augum er það orðið mjög aðkallandi að þingmenn og bæjaryfirvöld ræði hvað er unnt að gera til að breyta atvinnuástandinu til betri vegar. Það mætti til dæmis gera með ýmsum aðgerðum til að styðja við þann atvinnurekstur sem fyrir er þannig að hann gæti bætt við sig verkefnum og ráðið fleira fólk. Það er kannske um of treyst á fugla í skógi sem koma ef til vill til okkar með fjármagn frá útlöndum. Slíkt væri auðvitað bónus ef það gerðist en við þurfum samt fyrst og fremst að treysta á okkur sjálf við uppbyggingu atvinnulífsins.Það hefur verið sárt að horfa upp á öll þau litlu fyrirtæki sem hafa neyðst til að loka á undanförnum mánuðum. Reynum að taka höndum saman um að þau verði ekki fleiri.
Stöndum saman um að hamla gegn atvinnuleysi á svæðinu. Atvinnuleysi er eitt versta böl sem við er að etja í nútímaþjóðfélagi, ekki einungis vegna tekjuleysis heldur ekki síst vegna félagslegra vandamála sem fylgja í kjölfarið.
Látum það ekki ná tökum á okkar heimabyggð.


Sigríður Jóhannesdóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024