Siggi sigurvegari
RITSTJÓRNARPISTILL Sigurður Ingimundarson, þjálfari körfuboltasigurliðs Keflavíkur og fyrrverandi leikmaður er fæddur sigurvegari. Hann bætti við titli númer 34 sem þjálfari liða Keflavíkur um síðustu helgi þegar Keflavík vann Tindastól í Höllinni. Njarðvík vann svo í fyrsta sinn í kvennaflokki. Okkar fólk heldur áfram að vera í framlínunni í ritun körfuboltasögunnar.
En meira um Sigga sigurvegara. Bikarlyftingar hans hófust 30. mars 1989 þegar hann var fyrirliði Keflvíkinga en þeir urðu þá Íslandsmeistarar í körfu í fyrsta sinn á sögulegu tímabili. Þann titil þökkuðu þeir þó mest bandarískum þjálfara sem kom með nýtt og ferskt blóð inn í keflvískan körfubolta. Svo blóðþyrstur þótti hann að okkar mönnum þótti nóg um og þeir ráku hann en nýttu sér þó það sem hann hafði kennt þeim. Það dugði þeim til áframhaldandi sigra á næstu árum og var upphafið að nýju körfuboltastórveldi á Íslandi. Keflavík hefur síðan 1989 verið sigursælasta félag í karla- og kvennaflokki í þessari íþrótt. Og Siggi á stóran þátt í því. Karlarnir hafa unnið 21 titil og konurnar 13 á þessum árum undir hans stjórn. Hann á að auki fimm risatitla (Íslands- og bikarmeistaratitla) sem leikmaður. Sigurður stendur því vel undir því að vera kallaður sigurvegari með Íslandsmet í körfubolta-bikarlyftingum. Þegar hann lyfti Íslandsbikarnum 1989 í fyrsta sinn, þá sem fyrirliði, hafði nafni hans Valgeirsson (guðfaðir körfunnar í Keflavík) á orði við VF að það hafi verið nettur fýlusvipur á Sigga Ingimundar. Var alla vega ekki skælbrosandi. En af hverju er spurt? Jú, hann hafði ekki fengið að leika nógu mikið í úrslitaleiknum og það var hann ekki sáttur við þó svo titill hafi unnist. Keppnisskapið á sínum stað og rúmlega það. Við sem höfum fylgst með úr blaðamannastúkunni könnumst við keppnisskap Sigga sigurvegara því nokkrum sinnum hefur hann rokið út af velli og strunsað inn í búningsklefa og neitað okkur um viðtal. Af hverju? Jú, hann þolir ekki að tapa og ræður ekki við það. Dæmigert fyrir fædda sigurvegara. Þetta gerði Tiger Woods t.d. á sínum hápunkti sem kylfingur. Gaf skít í fjölmiðlamenn þegar hann vann ekki risamótin en brosti svo sínu breiðasta og var til í viðtöl þegar hann vann.
Þegar Siggi var ráðinn á ný til Keflavíkur sl. haust eftir að hafa fengið reisupassann hjá Njarðvíkingum, (ótrúlegt en satt), þá sögðu forráðamenn Keflavíkur að þeir vildu engan annan. Siggi vissi hvernig ætti að sigra. Og þrátt fyrir nokkuð brösótta byrjun í haust þá blés Siggi sigurvegari á allar hrakspár og stýrði liði sínu til sigurs í Höllinni í næst stærsta móti tímabilsins. Það eina sem truflar leiðarahöfund er sú staðreynd að Siggi hafði pantað sér skíðaferð í sömu viku og bikarúrslitaleikurinn átti að fara fram og þegar Keflavík komst í úrslitin þurfti hann eðlilega að hætta við skíðamennsku í ítölsku Ölpunum. Ónefndur maður fékk pláss þjálfarans í Ölpunum en átti erfitt með að skilja skipulag Sigga í þessu máli. Hvernig gat hann pantað sér skíðaferð í bikarúrslitaviku? Enginn íslenskur þjálfari hefur átt þetta sæti frátekið oftar undanfarna þrjá áratugi en Sigurður Ingimundarson. Ætli Siggi hafi hreinlega gleymt þeirri staðreynd þegar hann pantaði skíðaferðina? Hvað um það. Til hamingju Siggi sigurvegari og Keflvíkingar með enn einn risatitilinn.
Páll Ketilsson, ritstjóri