Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 11. febrúar 2003 kl. 08:30

Sex stúdentar af Suðurnesjum í framboði fyrir Vöku

Kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólafundar fara fram 26. og 27. febrúar næstkomandi. Fylkingarnar, Vaka og Röskva, sem berjast um að leiða starfið í Stúdentaráði hafa nú nýverið kynnt framboðslista sína. Sem kunnugt er sigraði Vaka Röskvu í fyrra og var munurinn einungis 4 atkvæði Vöku í vil. Vaka hlaut 1617 atkvæði en Röskva 1613. Reyknesbæingurinn Guðfinnur Sigurvinsson formaður Vöku leiddi annan sigurlistann í fyrra en kosið er þannig til Stúdentaráðs að tveir listar eru boðnir fram í einu. Listi frá fyrra ári og nýr framboðslisti, en þannig er tryggt að reynsla haldist innan ráðsins með því að hafa stúdentaráðsliðina af eldra og yngra ári.
„Vaka hefur verið mjög öflug á þessu starfsári í meirihluta Stúdentaráðs. Meðal annars náðum við mestu hækkun á grunnframfærslu námslána í áratug en hún hækkaði um 8,6% eða í 75.500 kr.- á mánuði. Þá var tekjutenging við maka á lánunum afnumin. Við opnuðum prófgagnabanka á netinu en við skönnuðum sjálf inn 3000 próf á 150 vinnustundum. Við rýmkuðum opnunartíma bygginga í prófum og nú eru iðnaðarmenn í óðaönn að setja upp aðgangsstýrikerfi í byggingum skólans og eru bundnar vonir við það verði komið upp næsta haust en þá er þetta vandamál úr sögunni. Þetta eru allra stærstu málin en við höfum náð mjög góðum árangri víðast hvar og leggjum nú verk okkar í dóm kjósenda,” segir Guðfinnur. Mikill meðbyr er með Vöku í ár en búast má við miklum átökum í kosningabaráttunni. „Þegar mikið liggur við teflir maður fram sínu sterkasta liði og við Suðurnesjamenn erum frægir fyrir seiglu okkar og því býst ég við því að þessi hópur muni skila Vöku góðum árangri í kosningunum og stúdentum frábærum árangri í hagsmunabaráttunni,” sagði formaður Vöku um þá sex frambjóðendur Vöku sem koma af Suðurnesjunum en þennan hóp skipa; Soffía Erla Einarsdóttir en hún skipar 6. sæti til Stúdentaráðs, Sæmundur Oddsson 7. sæti til Stúdentaráðs, Haukur Gunnarsson 12. sæti til Stúdentaráðs. Þá eru einnig í framboði Árni Árnason en hann skipar 5. sæti til Háskólafundar og Elísa María Oddsdóttir en hún skipar 6. sæti til Háskólafundar. Guðfinnur Sigurvinsson skipar svo annað heiðurssæti listans en hann lætur af störfum í Stúdentaráði 15. mars næstkomandi, segir í frétt Vöku.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024