Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Settu saman vinningslið!
Föstudagur 28. maí 2021 kl. 15:27

Settu saman vinningslið!

Þessa dagana drífur fólk að til að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ég hvet íbúa á Suðurnesjum til að taka þátt í að móta lista sem getur náð góðum árangri í kosningum til Alþingis í haust. Öflugt lið fólks sem getur unnið saman að frekari uppbyggingu betra samfélags, hjálpað íbúum Suðurkjördæmis að nýta þau tækifæri sem gefast í kjördæminu og lagt grunninn að bjartri framtíð unga fólksins okkar.

Ég hef á undanförnum vikum lagt áherslu á mikilvægi þess að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra en ekki síður til að veita ungu fólki tækifæri á að spreyta sig á markaði þar sem því er gert kleift að njóta ávaxta dugnaðar síns og hugmyndaauðgi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekkert nema það besta

Þá legg ég mikið upp úr því að fólk sjái sér hag í því að búa utan höfuðborgarsvæðisins en þá verða þættir eins og samgöngur og heilbrigðismál að vera í lagi. Það gengur ekki að öryggi fólks sé sett í annað sætið hvað rekstur skurðstofa og fæðingarhjálpar varðar. Auðvitað á fólk að geta gengið að fyrsta flokks þjónustu í heilbrigðismálum á sínu svæði, og þá ber að líta til þess að fleiri geti tekið þátt í að veita þá þjónustu, þótt kostnaður sé greiddur af opinberum aðilum. Læknar og hjúkrunarfólk vill líka ólmt búa á landsbyggðinni eins og við hin.

Það eru til lausnir

Umhverfismál ber að taka alvarlega og úrlausnir í þeim efnum er hægt að sækja í smiðju hins frjálsa markaðar, rétt eins og við erum að verða vitni að í bindingu kolefna og betri nýtingu orku í tengslum við ýmsar tækniframfarir. Við þurfum því alls ekki að binda okkur í kláfa risastórra ríkisbattería líkt og lagt hefur verið upp með í tengslum við miðhálendisþjóðgarð. Valdið og valið í því máli á heima hjá fólkinu í landinu og skipulagsmálin hjá sveitarfélögunum.

Ég horfi til aukinnar þekkingar á sviði meginatvinnugreina Íslendinga, svo sem í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og landbúnaði. Með þekkingu og þróun verða þessar stoðir íslensks hagkerfis grunnur að uppbyggingu í nýsköpun og eflingu hátækniiðnaðar.

Þitt er valið

Þetta er aðeins fátt eitt af því sem þarf að gera betur þegar málefni kjördæmisins okkar eru annars vegar. Sterkur og fjölbreyttur hópur þingmanna á að vera íbúum kjördæmisins til aðstoðar til að bæta hag okkar allra. Ég er til þjónustu reiðubúinn, hef til þess þekkingu og brennandi áhuga. Því bið ég þig um stuðning í þriðja sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna á laugardag.

Björgvin Jóhannesson
Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi á laugardag.