Sérhagsmunir eða almannahagsmunir – hvort viljum við að ráði?
Frá því að ég fór að fylgjast með samfélagsmálum höfum við Suðurnesjamenn talað um mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur á svæðinu. Við höfum verið sammála um mikilvægi þess að koma á öflugu samgönguneti á milli staða sem myndi styrkja Suðurnesin sem eitt atvinnusvæði, styrkja samstarf sveitarfélaga og efla ferðaþjónustu.
Á síðasta kjörtímabili gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur breytingar á lögum sem færði sérleyfisréttinn í almenningssamgöngum yfir til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Markmiðið var að efla almenningssamgöngur með því að gera landshlutasamtökunum kleyft að bjóða út leiðir sem eftirsóttar eru og styrkja aðrar leiðir sem ekki væru eins hagkvæmar. Þetta fyrirkomulag tíðkast víða í Evrópu. Þar er viðurkennt að reka megi heildstætt samgöngukerfi með hagnaðinum sem verður af rekstri á einum legg kerfisins.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) fagnaði lagabreytingum eins og önnur landshlutasamtök og gekk í verkið af krafti. SSS gekkst fyrir útboði á leiðinni Leifstöð – Reykjavík og seinna á öðrum leiðum á Suðurnesjum. Suðurnesjamenn hugðust nýta afraksturinn af einum feitasta bitanum í sérleyfisleiðum landsins, leiðinni Leifsstöð – Reykjavík, til þess að koma loksins á öflugu almenningssamgönguneti um öll Suðurnesin. Suðurnesjamenn sáu fram á betri tíð í samgöngumálum.
Svo kom hægristjórn
En fljótlega eftir að hægristjórnin tók við í sumar varð greinileg áherslubreyting í innanríkisráðuneytinu. Í kjölfar valdatöku Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hefur Vegagerð Íslands fellt niður einkaleyfi SBK á leiðinni Leifsstöð-Reykjavík sem fyrirtækið hlaut eftir útboð SSS. Margra ára vinna okkar Suðurnesjamanna er í uppnámi vegna stefnubreytingar innanríkisráðherrra og svo undarlega vill til sað svo virðist sem Suðurnesin séu eina svæðið á Íslandi sem fær þessa meðhöndlun. Enda munum við Suðurnesjamenn leita réttar okkar fyrir dómstólum og kæra Vegagerðina fyrir samingsbrot. Allur þessi gjörningur ber svo merki kunnulegs háttalags hægristjórna. Nú skal einkavæða hagnað og þjóðnýta tapið, taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni eins og þeirra háttur er.
Vekjum stjórnarþingmennina
Mér telst til að í þingliði ríkistjórnarinnar séu fimm Suðurnesjamenn – einn af þeim meira að segja ráðherra. Nær allir þessarar þingmanna höfðu uppi stór orð um málið sl. haust á fundi með okkur sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum - en samt er Hanna Birna Kristjánsdóttir langt kominn með að eyðileggja þessa miklu samgöngubót. Svo virðist sem innanríkisráðherra sjálfstæðismanna - og framsóknarmanna - ætli að láta almannahagsmuni, stórbættar almenningssamgöngur á Suðurnesjum, víkja fyrir sérhagsmunum. Ætla þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks af Suðurnesjum að sitja aðgerðarlausir hjá? Eru öskrandi ljón haustsins orðnir þægir kettlingar? Koma svo!
Eysteinn Eyjólfsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ