Senn líður að Ljósanótt
Hluti af dagskrá Ljósanætur hefur verið að sleppa helíumfylltum blöðrum og sjá þær stíga til himins. Blöðrurnar hafa lengi verið vinsælar við ýmis tilefni s.s. til skreytinga, til skemmtunar fyrir börn og til að sýna góðum málefnum stuðning. Þó blöðrurnar séu til skemmtunar til skamms tíma geta þær valdið skaða, skemmst er að minnast útkalli lögreglu og björgunarsveita þegar vegfarandi taldi sig sjá fallhlíf fara í sjóinn þegar um var að ræða tvær helíum blöðrur en skaðinn getur verið enn meiri.
Helíum er sennilega þekktast sem partýblöðru-gas og óvíst að margir átti sig á hversu dýrmætt gasið er. Nú í seinni tíð hefur borið á helíumskorti. Almenningur hefur helst orðið var við þann skort þegar falast er eftir helíum í blöðrur. En það eru aðrir og veigameiri þættir sem munu breytast þegar helíumskortur verður viðvarandi. Helíum er léttara en andrúmsloft og er það létt að þyngdarafl jarðar heldur því ekki svo það stígur upp og kemst út úr lofthjúpi jarðar. Helíum er ekki framleitt heldur finnst það með jarðgasi þar sem jarðvegur er nægilega þéttur. Fá svæði hafa helíum í vinnanlegu magni og er um 75% af vinnslu alls helíums í Bandaríkjunum. Suðumark helíums er nálægt alkuli eða -267 °C og er efnið í fljótandi formi besta kæliefni heims, og enn er ekki séð fram á hvernig skipta megi efninu út fyrir aðra kælimiðla. Aðalnotkun helíums í heiminum er sem kælivökvi á segulómunartæki (MRI-skanna) á sjúkrahúsum en einnig er það notað sem kælimiðill við framleiðslu hálfleiðara og í kjarnaofnum svo dæmi séu tekin. Helíum er einnig notað í loftbelgi til mælinga svo sem við háloftaveðurmælingar, það er notað við framleiðslu á ljósleiðara, á rannsóknarstofum, í eldsneytistönkum geimflauga og í innöndunargasi t.d. í súrefnistönkum kafara. Við notum helíum í margvíslegum tilgangi til að styðja við lífsmáta okkar og afleiðingar af skorti efnisins mun valda verulegum vandræðum. Í ljósi ofangreindra staðreynda er vert að velta því fyrir sér hversu nauðsynlegt það er fyrir okkur að velja rétta notkun á auðlindinni og leggja af helíumnotkun okkur til skemmtunar.
Óþarfa umbúðanotkun og ofnotkun plastpoka hefur verið mikið í umræðunni. Blöðrur eru flestar búnar til úr latexblöndu eða úr þunnri pólýesterfilmu (BoPET ) sem er m.a. nýtt í iðnaði t.d. við framleiðslu málmbands, í lok á jógúrtdósir og í geimbúningum NASA. Plast í hafinu ógnar lífverum aðallega á tvo vegu: líkamlegar hættur, þ.e. þegar lífverur flækjast í því og kafna (sjá t.d. á www.balloonsblow.org) og svo efnafræðilegar hættur, þ.e. lífuppsöfnun á plastögnum inni í líkama lífvera sem gerist t.d. með öndun neðansjávar eða með fæðu (fuglar, fiskar og sjávarspendýr). Flestar sjávarlífverur sem taka inn í sig plast eiga í erfiðleikum með að losa sig við það og margar hverjar geta það ekki sem getur valdið kvalarfullum dauðdaga. Þegar helíumfylltum blöðrum er sleppt lausum þá enda þær flestar lífdaga sína í hafinu. Þó blöðrur í hafinu séu ekki uppistaðan í plastmengun hafsins eru þær eitt af þeim plastefnum sem við getum auðveldlega komið í veg fyrir að berist þangað. Helíum er þrjótandi auðlind sem er okkur nauðsynleg til framleiðslu á vörum sem við viljum alls ekki vera án t.d. innan heilbrigðisgeirans. Að spara helíum er því eitthvað sem við ættum öll að kappkosta. Eins og allir vita þá er plast umhverfisspillir sem veldur miklum skaða í umhverfinu. Afleiðingin af því að sleppa helíumfylltum blöðrum verður að vera okkur öllum kunn, þær eru vissulega fallegar og tignarlegar á leið til himins – en er það þess virði?
Undirritaðar hvetja Reykjanesbæ til þess að snúa setningarathöfn Ljósanætur í langlífari og umhverfisvænni skemmtun.
Góða skemmtun á Ljósanótt,
Ásdís Ólafsdóttir líffræðingur
Snjólaug Ólafsdóttir umhverfisverkfræðingur