Sendibréf til Suðurnesja
Ólafur Bjarni Halldórsson, íbúi á Ísafirði, ritar pistil á vef Bæjarins besta í dag, sem er opið bréf til Árna Sigfússonar, bæjarstóra í Reykjanesbæ. Í bréfinu er Ólafur Bjarni að styðja þá hugmynd að innanlandsflugið verði flutt frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvelli, gegn því að stjórnsýsluþjónusta sem landsbyggðin sækir til Reykjavíkur verði jafnframt flutt til Reykjanesbæjar. Bréfið til Árna er meðfylgjandi:
Heill og sæll Árni Sigfússon. Við Vestfirðingar eins og aðrir höfum fylgst með baráttu ykkar við erfitt atvinnuástand á Suðurnesjum. Ástæðurnar eru sumar augljósar og aðrar meira undirliggjandi. T.d. varð mikil og ör fjölgun á Suðurnesjum við komu Bandaríkjahers til Íslands og samsvarandi fækkun á landsbyggðinni. Það skýrir t.d. hvers vegna menn skilgreina í dag ,,betra atvinnuástand“ á Vestfjörðum. Þar búa í dag rúmlega 7.000 manns en ættu að vera yfir 30.000 ef við hefðum haldið í við fjölgun á landinu síðan 1950. Minnkandi sjávarútvegur hefur mikið að segja en þó hefur t.d. Grindavík í öllum niðurskurðinum gert meira en að halda sínu því þangað var á einni nóttu fluttur 70 ára afrakstur af uppbyggingu Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík. Þegar mikil áföll verða er auðveldara að leysa vandamál þar sem hluti fólksins flytur á brott heldur en þegar það að mestu situr um kyrrt.
Ég hef eina tillögu sem er sett fram í fullri alvöru og ég er viss um að fólk á landsbyggðinni getur vel hugsað sér að styðja. Menn úti á landi eru orðnir býsna þreyttir á stöðugum umræðum um flutning flugvallarins úr Vatnsmýri sem borgarfulltrúar virðast vera sammála um (að undanteknum Ólafi F. Magnússyni) að standi þróun borgarinnar fyrir þrifum. Hvorki virðast raddir þeirra sem lengi hafa starfað að flugmálum né heilbrigðisþjónustu ná eyrum borgarfulltrúa. Flestum ætti þó að vera ljóst að þeir hugsanlegu tekjur sem borgin hefði af lóðasölu (umfram lóðasölum á öðrum stöðum) geta ekki réttlætt þá gífurlegu fjárfestingu sem það kostar að byggja nýjan flugvöll í nágrenni borgarinnar. Þar fyrir utan hefur enginn staður fundist sem hefur álíka skilyrði til lendinga og flugtaks eins og Vatnsmýrin. Því er verið að fara fram á að þjóðfélag sem hefur glatað lánstrausti sínu fjárfesti líklega yfir 100 miljarða í mannvirki til að leggja annað niður sem er fullfært um að gegna þessu hlutverki. Þeir sem halda fram að flugvellir séu aldrei í jaðri borgarbyggðar hafa líklega aldrei heimsótt Boston eða Aþenu.
Hér kemur tillagan. Við þurfum ekki að byggja nýjan flugvöll. Hann er til staðar. En það er nauðsynlegt að flytja með honum mikið af þjónustu á vegum stjórnsýslunnar og sömuleiðis og ekki síður heilbrigðismálin. Við landsbyggðarmenn munum styðja það heils hugar að þessi þjónusta verði í nágrenni við flugvöllinn sem mun þjóna bæði innanlands- og utanlandsflugumferð. Þetta mun leysa atvinnumál á Suðurnesjum og létta þungum krossi af borgarstjórn Reykjavíkur. Ræðið þetta við stjórnvöld. Við munum styðja þétt við bakið á ykkur.
Bestu kveðjur á Suðurnes,
Ólafur Bjarni Halldórsson, Góuholti 9, 400 Ísafirði.