Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Semjum strax!
  • Semjum strax!
Þriðjudagur 27. maí 2014 kl. 10:55

Semjum strax!

Heiða Ingólfsdóttir skrifar.

Faglegir og góðir leikskólar og leikskólakennarar eru nauðsynlegir í nútímasamfélagi. Flestir foreldrar vinna langan vinnudag og börn á leikskólaaldri flest í leikskólanum allan daginn. Í leikskóla stíga börn sín fyrstu skref á menntabrautinni og er mikilvægt að sú reynsla sé jákvæð og uppbyggileg og áherslur í námi í takt við þroska þeirra og reynslu. Leikskólar eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir en eiga það sameiginlegt að vinna á markvissan hátt að því að efla þroska barna og undirbúa þau fyrir lífið sem framundan er í lýðræðissamfélagi.

Að þessum orðum sögðum er nauðsynlegt að beina umræðunni að alvarlegu málefni en mikill skortur er á leikskólakennurum. Það reynist oft erfitt að halda úti faglegu starfi innan veggja leikskólanna.  Leikskólakennararnir eru einfaldlega allt of fáir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikskólakennarar um land allt bíða nú eftir að samninganefnd sveitarfélaga semji um laun þeirra en deilu FL og SNS hefur verið vísað til ríkissáttasemjara. Það vantar um 1300 leikskólakennara til að uppfylla lagaákvæði um menntun og ráðningu kennara og stjórnenda í leikskólum og er það verulegt áhyggjuefni.  Lítil endurnýjun er í stéttinni og innan fárra ára munu margir leikskólar vera í verulegum vanda vegna skorts á fagmenntuðu fólki og verður þá ekki hægt að gera sömu kröfur um faglegt starf.

Það er hagur okkar allra að semja um leiðréttingu launa leikskólakennara sem allra fyrst og stuðla að því í sameiningu að efla stéttina og fjölga leikskólakennurum og bregðast þannig við þessum skorti. Fagmenntunin tryggir gæði leikskólastarfsins til frambúðar.

Skora ég á SNS að semja hið snarasta og jafna laun leikskólakennara við aðrar kennarastéttir, það er lágmarkskrafa og nauðsynlegt skref að taka til að lenda ekki í verulegum vanda á komandi árum. Það þarf vel menntaða kennara til að mennta börn á mesta mótunarskeiði ævinnar.

Áfram leikskólakennarar!
Heiða Ingólfsdóttir
Leikskólakennari og sérkennslustjóri í leikskólanum Holti í Reykjanesbæ
Gjaldkeri í stjórn Félags leikskólakennara
Ritari 9. deildar Félags leikskólakennara