Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Þriðjudagur 22. apríl 2003 kl. 19:57

Segðu satt Hjálmar!

Mikið er þreytandi að þurfa alltaf að vera að leiðrétta alþingismanninn Hjálmar Árnason, sem virðist hafa ákveðið að beita heldur óvönduðum meðulum í baráttu sinni fyrir því að halda þingsæti sínu. Það hlýtur þó að vera lágmarkskrafa til þeirra, sem bjóða sig fram til starfa á hinu háa Alþingi að þeir virði amk. leikreglur í siðaðra manna samfélagi og falli ekki í þá freistni að leggja nafngreindum mönnum orð í munn og gagnrýna svo hina sömu fyrir ummæli sem aldrei féllu.Ástæða þessara skrifa minna núna er grein Hjálmars inn á vefsíðu Framsóknarflokksins þar sem hann er að skrifa um sjávarútvegsmál. Þar segir hann að undirritaður hafi á framboðsfundi á Ránni lýst því yfir að útgerðarmenn innan ESB ættu að hafa fullt leyfi til að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum eftir innköllun veiðiheimilda samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Honum finnst í sömu grein, byggt á sinni eigin rangfærslu, það vera umhugsunarefni að Samfylkingin vilji hleypa útlendingum inn í landhelgi okkar.

Það sem Hjálmar heldur þarna fram er fjarri öllum sannleika og í raun óskiljanlegt hvernig hann snýr hlutum upp í andhverfu sína. Á umræddum fundi sagði ég að í óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, þar sem útgerðir enduðu sem eigendur kvótans, gæti verið hætta á því að erlendir aðilar eignuðust varanlegar aflaheimildirnar á Íslandsmiðum með kaupum á hlutabréfum í útgerðarfyrirtækjunum. Aldrei var minnst á að útlendingar ættu að eiga möguleika á að bjóða í leiguheimildir, enda er það alls ekki á stefnuskrá Samfylkingarinnar að þannig verði búið um hnútana.

Ég taldi Hjálmar Árnason grandvaran og gætinn einstakling og hefði ekki að óreyndu trúað upp á hann slíkum ódrengskap og hann verður ber að í grein sinni. Þó kosningabaráttan sé á tíðum hörð og þeir sem í framboði eru þurfi að koma sér upp nokkuð hörðum skráp, þá er ekki hægt að láta hreinum ósannindum ósvarað.

Stjórn fiskveiða hefur mistekist í öllum meginatriðum. Núverandi kerfi hefur ekki byggt upp helstu nytjastofna á íslandsmiðum þó það hafi verið yfirlýst markmið kerfisins númer eitt. Byggðirnar hafa veikst en ekki styrkst, nýliðun er nánast ómöguleg, mun meira er veitt og drepið en í land kemur og hin mikla hagkvæmni sem fylgismenn kerfisins tala um er hagkvæmni til handa fáum á kostnað hinna mörgu. Fylgismenn kerfisins grípa nú í auknum mæli til hræðsluáróðurs og hreinna rangfærslna þegar þeir standa frammi fyrir ábyrgum tillögum Samfylkingarinnar um afnám forréttinda í greininni, forréttinda sem ganga þvert gengn öllu því sem Samfylkingin stendur fyrir.

Heyjum kosningabaráttuna á málefnalegum nótum, flokkar og frambjóðendur verða að sjást fyrir í þeim aðferðum sem þeir beita í slag um atkvæði kjósenda.

Jón Gunnarsson
Skipar 4. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024