Segðu bara sannleikann
Ég var ekki búin að vera bæjarstjóri í Garði lengi þegar til mín í heimsókn kom maður sem hafði verðið sveitarstjóri um árabil í sama bæ. Hann sagðist vera kominn til að gefa mér aðeins eitt ráð. Það væri að segja alltaf sannleikann. „Segðu alltaf sannleikann Oddný mín, jafnvel þó það geti verið erfitt. Það margborgar sig og fólkið verður að geta treyst þér.“ Ég hef oft hugsað til þessarar heimsóknar á erfiðum stundum í glímunni við afleiðingar efnahagshrunsins. Þar hefur sannleikurinn ekki alltaf verið gleðilegur eða vænlegt til vinsælda að greina frá stöðunni og nauðsynlegum aðgerðum.
Við höfum tekist á við afleiðingar efnahagshrunsins af ábyrgð, hagrætt í ríkisrekstri og aukið tekjur ríkissjóðs en jafnframt aukið jöfnuð, forgangsraðað velferðinni fremst og hag þeirra sem minnst hafa handa á milli. Við sjáum fram á að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og skila afgangi á ríkisreikningi árið 2014. Það er ákaflega mikilvægt að sýna staðfestu þegar að því kemur og nýta það svigrúm sem gefst til að greiða niður skuldir. Vegna hallareksturs og lána sem ríkið varð að taka vegna bankahrunsins er ríkissjóður mjög skuldsettur. Við erum nú að greiða tæplega 90 milljarða króna í vexti árlega sem er stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir velferðarmálunum. Þessari upphæð þarf að ná niður og breyta með því vöxtum í velferð.
Þó tekist hafi að stöðva skuldasöfnunina og auka jöfnuð í samfélaginu er mikið verk enn óunnið. Það þarf að tryggja það að jafnaðarmenn fái umboð til að halda áfram uppbyggingu samfélags þar sem byrðunum er dreift með réttlátum hætti. Þar sem uppbygging fjölbreytts atvinnulífs er forgangsmál og hagvöxtur tryggður til framtíðar. Þar sem almannahagur er tekinn fram fyrir sérhagsmuni. Þar sem vandaðar langtímaáætlanir eru valdar en aldrei vanhugsaðar skyndilausnir.
Ég sækist eftir því að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi en flokksmenn og skráðir stuðningsmenn velja uppröðun frambjóðenda 16. og 17. nóvember. Kosningin er rafræn og stendur til kl. 18:00 á laugardaginn.
Ég óska eftir stuðningi í 1. sætið.
Oddný G. Harðardóttir
þingflokksformaður Samfylkingarinnar