SAR skorar á sveitarfélögin á Suðurnesjum
Samtök Atvinnurekenda Reykjanesi (SAR) skora á allar bæjarstjórnir á Reykjanesi að sameinast um framtíðar uppbyggingu svæðisins og þar með að beita sér meðal annars fyrir því að raforkudreifing inn á svæðið verði tryggð með lagningu Suðurnesjalínu II, Reykjanesbraut verði kláruð og að verkefni finnist fyrir Helguvíkurvíkurhöfn sem standast kröfur og samræmast stefnu sveitarfélaganna og Kadeco um uppbyggingu svæðisins.
Gagnastrengur mun koma á land við Grindavík og þarf að tryggja að aðstæður og aðföng á svæðinu séu til staðar svo að fyrirtæki sjá hag sinn í að hafa starfsemi sína hér, sem næst tengingunni. Fleiri verkefni væri hægt að telja upp og vonandi skapast umræða um þau sem sýnir mikilvægi þess að vinna saman. Það skiptir höfuðmáli að vera tilbúin þegar viðspyrnan byrjar og vera í fararbroddi við að sækja þau tækifæra sem koma upp. Það þarf ekki að eyða of mörgum orðum í atvinnuleysistölur á Reykjanesinu, en öll vitum við að fall ferðaþjónustunnar hefur hér mest að segja þar sem svæðið er með flest eggin í þeirri körfu. Ferðaþjónustan mun taka við sér aftur með auknum störfum við flugvöllinn sem munu um alla framtíð vera lífæð svæðisins og gáttin inn í landið. Þau fyrirtæki sem hvað mest vinna í ferðaþjónustu ættu að sjá hag sinn í að byggja upp á svæðinu og fjölga störfum sem eru fjölbreytileg.
Það er mjög mikilvægt að segja jákvæðar fréttir af Reykjanesinu og bæjarfélögin ættu að nýta sér samtakamáttinn í þá átt. Samtakamáttur sveitarfélaganna mun styrkja atvinnurekstur á svæðinu og þar með styrkja sjóði sveitarfélaganna og einnig verður Ríkið að tryggja að stofnanir og aðrir innviðir á vegum þess þoli viðspyrnuna sem mun koma.
Hlutverk SAR er að benda á tækifærin á svæðinu, sýna hversu mikið svæðið hefur upp á að bjóða og vera í því hlutverki að tengja saman atvinnurekendur á svæðinu til að sýna okkar innri styrk. SAR er tilbúið að leiða vettvang um þau verkefni sem þarf að skoða frekar og finna þeim farveg innan stjórnkerfis eða skapa umræðu meðal kjörinna fulltrúa.
Virðingarfyllst
Guðjón Skúlason
Formaður SAR