Sannleikurinn mun gera yður frjálsan
Í gær birtist fréttatilkynning hér á síðum Víkurfrétta um málefni HS Orku, fréttatilkynning sem ekki verður séð hvort heldur er frá Reykjanesbæ eða Geysi Green Energy, enda virðast hagsmunir þessara aðila vera svo samofnir að ekki sé ástæða til að greina þar á milli.
Sannleikurinn mun gera yður frjálsan stendur einhversstaðar, og ljóst að loksins eru þeir er sendu fréttatilkynnningu þessa inn farnir að segja sannleikann í málefnum Hitaveitu Suðurnesja að nokkru leyti. Og fyllast gleði og bjarsýni á framtíðina og þá gjörninga sem þeir hafa boðað okkur. Sem lítil eða enginn innstæða er fyrir.
Á sínum tíma þegar meirihluti sjálfstæðismanna kynnti fyrirtæki útrásarvíkinganna, Geysir Green Energy sem heppilegastan allra samstarfsaðila lét bæjarstjórinn og reyndar forstjóri GGE hafa eftir sér, að þeir ásældust ekki meirihlutaeign í HS. Aðkoma þeirra að fyrirtækinu væri fyrst og fremst til þess að geta sýnt erlendum samstarfsaðilum GGE hvernig vinnsla jarðvarma færi fram og að sú þekking sem þyrfti, væri til staðar. Í fréttatilkynningunni kemur þó hið rétta í ljós. Geysir Green Energy hefur allan tímann haft á stefnu sinni að eignast meirihlutann í orkusöluhlutanum. Og nú hefur það verið staðfest af forstjóra GGE. Þetta skýrir náttúrulega þá atburðarrás sem nú er í gangi.
Sú aðferðafræði sem meirihlutinn í Reykjanesbæ hefur valið til að ná fram markmiði sínu um að einkavæða orkusöluhluta Hitaveitu Suðurnesja vekur sérstaka athygli. Hér er verið að ræða um samninga sem innibera næstum því þrefaldar fjárhagsáætlanir bæjarins. Og það er valið að ganga frá því máli á meðan bæjarstjórnin er í sumarfríi, og bæjarráð fer með málefni bæjarins.
Bæjarráði þar sem fjallað eru um mál undir formerkjum trúnaðar. Og enginn eða fáir vita hvað fram fer umfram það sem kemur fram í fundargerð hverju sinni. Og það er nú oftast lítið. Því ræður trúnaðurinn.
Nú ætla ég ekki að neita því né jánka að ég viti vel hvað í þeim samningum stendur sem ræddir hafa verið í bæjarráði undir formerkjum trúnaðarins, og tel mig ekki bundinn neinum trúnaði af þeim upplýsingum sem ég hef fengið þar af lútandi í þeim samtölum sem ég hef átt um þetta mál. Miðað við það sem ég hef fengið að heyra, eru þær upplýsingar þess eðlis að þeir samningar sem þar eru til umfjöllunar geta ekki á nokkurn hátt heyrt undir trúnað! Þar er verið að misnota eða nauðga öllum þeim hugmyndum sem flestir hafa um opinbera stjórnsýslu og meðferð almannahagsmuna. Hér er á ferð nýtt REI mál í sinni alsvæsnustu mynd og krafa okkar íbúa Reykjanesbæjar ætti að vera að þeim trúnaði sem ríkir um samninga þessa verði tafarlaust aflétt.
Það að ætla sér að þröngva þeim samningum í gegn sem hér um ræðir án þess að íbúum þessa bæjar og annarra bæjarfélaga sem málið viðkemur sé gerð grein fyrir umfangi málsins , er í raun gróf misnotkun á því umboði sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur frá íbúum þessa bæjar, og snertir ekki einungis núlifandi íbúa þessa bæjar heldur alla þá afkomendur er hér munu ala aldur sinn næstu 130 ár, svo gróf er misnotkunin. Og þar eru það ekki hagsmunir samfélagsins sem ráða för, né heldur farið að ráðleggingum þeirra endurskoðenda sem fengnir voru til að fara yfir þennan gjörning fyrir bæjarins hönd og með hagsmuni hans að leiðarljósi. Heldur afkoma GGE og hluthafa þeirra með sterkum, en óhugsuðum stuðningi sterks meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem gerir það sem honum er sagt hverju sinni.
Þeir geta verið kátir og fagnað áfanganum félagarnir sem sendu inn fréttatilkynninguna sem þeir segjast hafa náð með fyrirhuguðum landakaupum á meðan þeir segja ekki hvað að baki býr. Skyldu þeir vilja sýna okkur skilmálana sem að baki búa?
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson