Sannleikanum verður hver sárreiðastur
Það er greinilegt að ég hef komið við kauninn á Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Suðurkjördæmis þegar ég gagnrýndi það að hann hefði ekki haldið á lofti byggingu álvers í Helguvík, í viðtali sem tekið var við hann á Bylgjunni í síðustu viku.
Í það minnsta telur Ásmundur að þessi gagnrýni mín sé næg ástæða til þess að lista upp afrek sín við uppbygginu atvinnu hér á Suðurnesjum frá morgni til kvölds, svona ef ske kynni að við hin hefðum ekki tekið eftir því.
Ég hef nú ekki áhuga á að standa í einhverri pissukeppni við Ásmund Friðriksson. Hann verður að vera einn í þeirri keppni. Ég vil hins vegar árétta það sem ég sagði í fyrri grein minni.
Sú vonda ríkisstjórn sem kom í veg fyrir uppbyggingu í Helguvík er nú dauð og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hefja þar framkvæmdir.
Eða stendur eitthvað annað í veginum?
Var ekki verið að segja satt þegar menn þrömmuðu Reykjanesbrautina og héldu því fram að ríkisstjórnin gamla kæmi í veg fyrir framkvæmdir í Helguvík?
Væri ekki rétt að upplýsa íbúa um stöðu mála? Það er nefnilega þannig að ef umframorkan sem til er í kerfinu verður nýtt í eitthvað annað, þá mun það tefja verulega fyrir byggingu álvers í Helguvík.
Smjörklípan
En það er greinilegt að Ásmundur gleymir ekki og hefur hugsað mér þegjandi þörfina í rúm tvö ár, vegna greinar sem ég skrifaði í ágúst 2011. Ég hafði ekki áttað mig á að ég hafi í þessari grein gert lítið úr merkilegri vinnu margra aðila sem vildu leggja gott eitt til.
Að ég hefði móðgað 400 manns á einu bretti að sögn Ásmundar miðað við orð hans þegar hann segir:
„Sendi okkur (400manns) sem stöndum að Skötumessunni, gestir og vinir mínir sem hjálpa við framkvæmdina tóninn fyrir nokkrum misserum og gerði lítið úr þessu brölti okkar eins og nú.“
En svona til að áhugasamir (ef einhverjir eru) geti kynnt sér þessa gömlu grein mína
sem er tilefni þessara orða Ásmundar, þá læt ég hana fylgja hér með. Ásmundur, núna eins og þá, ræðir ekki efnisatriði, heldur grípur til hinnar margfrægu smjörklípuaðferðar, þá á Steingrím J. en núna á mig.
En í þessu máli duga hins vegar engar smjörklípuaðferðir. Þær færa engum neitt og síst af öllu búa þær til atvinnu fyrir fólkið á svæðinu.
Nú er búið að koma vonda fólkinu frá völdum og er þá ekki kominn tími til að staðið verði við stóru orðin? Annars held ég að margir lendi í vandræðum með skottið sitt.
Guðbrandur Einarsson