Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Sanngjörn skuldaskil og alvöru leigumarkaður
Miðvikudagur 10. apríl 2013 kl. 09:19

Sanngjörn skuldaskil og alvöru leigumarkaður

Sanngjörn skuldaskil gagnvart þeim sem eru með verðtryggð húsnæðislán er eitt stærsta úrlausnarefni næstu missera. Sparnaður landsmanna var varinn þegar mest gekk á og útilokað er að gera þetta átakatímabil upp með réttlátum hætti nema að mæta frekar vanda þeirra sem skuldsettu sig fyrir húsnæði árin fyrir  kreppu.

Þessi hópur varð fyrir forsendubresti og þarf að finna færar leiðir til að koma til að mæta skuldavandanum með sértækum aðgerðum sem eru kostaðar með einskiptis skatti á bankagróða og í gegnum samninga við kröfuhafa.

Búið er að verja um 300 milljörðum í skuldaleiðréttingar. Á gjaldeyrislánum, í gegnum greiðsluaðlögun Umboðsmann og 110% leiðina en meira þarf að gera. Því þarf að leita allra færra leiða til að skapa svigrúm til frekari aðgerða svo sanngjarnt uppgjör fari fram gagnvart þessum stóra hópi fólks.

Húsnæðisbætur og leigumarkaður

Í húsnæðisstefnu okkar jafnaðarmanna bera hæst aðgerðir til  að gera leigumarkaðinn að öruggari valkosti með markvissum aðgerðum. Þar eru þessar helstar:

    Nýjar húsnæðisbætur. Þannig fá þeir sem leigja sér íbúð jafn góðan stuðning og þeir sem kaupa.

    2.000 nýjar leiguíbúðir í samstarfi við sveitarfélög og búseturéttarfélög.

    Útleiga á einni íbúð sé undanþegin fjármagnstekjuskatti og skerði ekki tekjur lífeyrisþega.


Þá leggur Samfylkingin áherslu á að bæta hag barnafjölskyldna með sanngjörnum og markvissum ráðstöfunum sem gagnast mest þeim sem eru í brýnni þörf:

    Bankarnir fjármagni sanngjarna lækkun skulda þeirra sem keyptu á versta tíma fyrir hrun. Afskriftir fylgi áfram gegnsæjum leikreglum.

    Viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs og þeir sem eru með lánsveð njóti sömu úrræða og aðrir hafa getað nýtt sér á síðustu árum.

    Ljúka þarf viðræðum við ESB til að fá stöðugan gjaldmiðil til lækka vexti og matarverð og verja heimilin fyrir verðbólgu og efnahagsbólum.


Einnig ætlar Samfylkingin að ljúka afnámi stimpilgjalda sem er ósanngjarn skattur. Sem kunnugt er hafa stimpilgjöld af endurfjármögnun íbúðalána þegar verið afnumin en það auðveldar fólki að skipta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Kostnaðurinn við krónuna

Stærsta áskorun okkar til lengri og skemmri tíma snýr hinsvegar að stöðugleika í gjaldmiðilsmálum og þar með efnahagslegu fullveldi þj. Í skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram að lántökukostnaður íslenska ríkisins er að meðaltali 4,5% hærri en í samanburðarríkjum árin 1995 til 2012. Þetta er hið svonefnda »Íslandsálag« sem við þurfum að borga umfram aðrar þjóðir með gjaldmiðlinum okkar á skuldir allra heimila, fyrirtækja og hins opinbera. Viðskiptaráð mat það svo, að »Íslandsálagið« gæti numið á bilinu 130 til 230 milljörðum króna á hverju einasta ári.

Líklega er neðri talan afar varlega áætluð því bara ríkið eitt og sér borgar um 90 milljarða króna á ári í vexti af erlendum lánum. Þá eru eftir vaxtagreiðslur sveitarfélaganna sjötíu og sjö, fyrirtækjanna okkar og tugþúsunda heimila. Sérhvert prósentustig í lægri vexti einungis af skuldum ríkissjóðs getur skilað okkur 14-15 milljörðum á ári. Ef Ísland fengi að borga Evrópuvexti myndi það spara ríkissjóði um 60 milljarða króna á ári. Það eru raunverulegir fjármunir.

Alþýðusamband Íslands kemst að svipaðri niðurstöðu varðandi »Íslandsálagið«. Þeirra útreikningar frá því fyrir rúmu ári sýndu að vextir af nýjum húsnæðislánum hér á Íslandi hafa verið tæplega þrefalt hærri en að meðaltali á evrusvæðinu. - Þrefalt hærri!

Niðurstaðan er sú að ef Íslendingar fengju að borga meðaltalsvexti á evrusvæðinu myndi það spara íslenskum heimilum um 117 milljarða króna á ári. Það jafngildir að meðaltali 17% hækkun ráðstöfunartekna. Þetta undirstrikar enn frekar að skuldamál heimilanna eru nátengd gjaldmiðilsmálunum. Því þarf að ljúka aðildarviðræðum við ESB, sjá ávinning og ágalla svart á hvítu og taka til þess málefnalega afstöðu hvort tenging  og síðan upptaka evru sé rétta leiðin til að létta kostnaðinum við krónuna af íslensku þjóðinni.

Björgvin G. Sigurðsson,
þingmaður Samfylkingarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024