Samvera er lykilorð aðventu og jóla
Nú hef ég setið á Alþingi Íslendinga í rúmt ár. Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að áður fyrr þótti mér sá vinnustaður ekki sérlega áhugaverður þegar á hann var horft úr fjarlægð á sjónvarpsskjánum. Þingmennsku sá ég fyrir mér sem heldur þrasgjarnt starf með takmörkuðum árangri.
Vissulega má með sanni segja að Alþingi sé stærsta málstofa Íslands. Þar er oft talað frá morgni til kvölds og í hreinskilni hefur maður mismikinn áhuga á umræðuefnunum, eðli máls samkvæmt. Vinnustaðurinn gerir hins vegar þá kröfu til okkar sem þar sitjum að við tökum afstöðu til mála hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ég er oft spurð hvernig mér líki nýja vinnan mín og svara því af hreinskilni að mér líki hún vel. Margt er eins og ég hafði gert mér í hugarlund en annað kom mér á óvart, til að mynda hve góður vinnustaður Alþingi er í raun og veru. Starfsfólkið er einstakt, umgjörðin öll sömuleiðis og utanumhaldið til fyrirmyndar.
Þingmenn takast vissulega á og það hvessir í salnum. Við deilum, jafnvel harkalega, og það er einmitt sú mynd af Alþingi sem margir hafa – eðlilega. Bakhlið þeirrar myndar er einfaldlega sú að orðræða fyrir opnum tjöldum er hinn sýnilegi hluti starfsins. Í ræðustólnum, framan við kastljós upptökuvélanna, erum við að sinna starfsskyldum að hluta. Við sitjum á Alþingi sem fulltrúar mismunandi stjórnmálaflokka og sjónarmiða og það hlýtur að birtast út á við. En um leið lítum við á okkur sem vinnufélaga, kynnumst sem slíkir, verðum kunningjar og vinir og störfum saman af vinsemd og virðingu líkt og gerist og gengur á vinnustöðum yfirleitt.
Stundum finnst mér hins vegar skorta nauðsynlega virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum víða annars staðar í samfélaginu. Margir gerðu sér vonir um að samfélagsmiðlar yrðu vettvangur heilbrigðs samtals þar sem heill akur skoðana gæti blómstrað í sátt og friði. Sú varð ekki raunin. Fjöldi fólks hættir sér ekki einu sinni út í að tjá sig þarna til að fá ekki yfir sig flaum af rætnum athugasemdum eða jafnvel hreinum fúkyrðum.
Þetta er samfélagslegt vandamál og alvarlegt sem slíkt. Við eigum að virða skoðanir hvers annars, ræða málin hispurslaust og vera reiðubúin að tala okkur að niðurstöðu. Breytt hugarfar í þessa veru er fróm ósk í anda jólanna!
Nú er aðventan gengin í garð með öllum sínum asa, innkaupum, ljósadýrð og samveru. Ég segi samveru því fyrir mér er mikilvægara en flest annað að rækta kærleika og vináttu með sínum nánustu um hátíðarnar. Fátt er dýrmætara en samverustund með fjölskyldu eða í góðra vina hópi. Það er gjöf sem við gefum sjálfum okkur og öðrum og kostar ekkert. Maður er og verður manns gaman.
Hlúum hvert að öðru, sýnum náunganum kærleika nú sem fyrr. Látum gott af okkur leiða í þágu þeirra sem minna mega sín en drögum frekar sjálf úr innkaupum á því sem má vel missa sín þegar að er gáð.
Síðast en ekki síst, sinnum börnunum okkar eins og þau eiga skilið. Andlegri heilsu barna hrakar, það sýna endurteknar kannanir, því miður. Verðmætasta gjöfin fyrir börnin er að veita þeim tíma og verðskuldaða athygli, styrkja þau og styðja.
Ég þakka Reyknesingum öllum fyrir ánægjulega samveru á árinu sem er að líða og hlakka til að eiga góðar stundir með ykkur á nýju ári.
Gleðilega hátíð!
Guðrún Hafsteinsdóttir,
oddviti Suðurkjördæmis.