Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Samþykkjum Icesave
Sunnudagur 27. febrúar 2011 kl. 14:16

Samþykkjum Icesave

Sá Icesave- samningur sem nú liggur á borðinu og Alþingi samþykkti með miklum meirihluta er afsprengi samkomulags allra stjórnmálaflokkanna á þinginu. Bretar og Hollendingar höfðu sett það sem skilyrði fyrir þriðju samningatilrauninni að fleiri kæmu að málinu en ríkisstjórnin. Stjórnarflokkarnir samþykktu þá kröfu og stjórnarandstaðan skipaði sérstakan fulltrúa sinn í samninganefndina, Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann, sem var í nánu samstarfi við hana fram til þess að skrifað var undir samninginn. Sjálfstæðisflokkurinn og formaður hans, Bjarni Benediksson, sýndi mikla ábyrgð með því að taka þátt í þeirri tilraun utan ríkisstjórnar og standa að nýjum samningi. Icesave-samningurinn er m.ö.o. ávöxtur þingsins alls en ekki ríkisstjórnarinnar einnar, eins og margir vilja vera láta. Reyndar hlupu tveir minnstu flokkarnir undan merkjum á endasprettinum, þó ekki þau Sif Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson úr Framsóknarflokknum.


Pólitísk andstaða forsetans og sögulegur bakgrunnur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sú var tíðin að konungur Danmerkur og Íslands var einvaldur, hafði löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald einn á sinni hendi. Þegar einræði ríkti töldu konungar sig þiggja vald sitt frá guði. En hugmyndum um frelsi einstaklinganna, jafnrétti og bræðralag, sú samkennd sem því fylgir því að búa í samfélagi, óx fylgi eftir frelsis -byltinguna í Frakklandi 1789. Þjóðþing urðu til á nítjándu öld og festust í sessi á þeirri tuttugustu og konungar gáfu vald sitt eftir í áföngum ef þeir voru ekki beinlínis leiddir fyrir aftökusveit í byltingum þessara ára. Á Norðurlöndum skildu kóngarnir sinn vitjunartíma en vildu í fyrstu tryggja að þingin settu ekki lög í pólitískri andstöðu við þá sjálfa. Það gerðu þeir með neitunarvaldi sínu, þannig að lög sem þingin samþykktu urðu ekki lög nema þeir samþykktu þau líka.


Þegar Ísland varð lýðveldi með þingbundinni stjórn eins og segir í 1. grein stjórnarskrárinnar frá 17. júní 1944 voru leifar af þessu gamla konugsræði enn með í för. Í 2. gr. segir að Alþingi og forseti Íslands (áður konungur) fara saman með löggjafarvaldið. Neitunar- eða stöðvunarvaldið var afnumið í stjórnarskránni frá 1944 en þar er löggjafarvald forseta útfært nánar og sagt hvað beri að gera ef upp kemur ágreiningur milli forseta og Alþingis. ,,Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.” 26.gr. Þar sem forsetanum var ekki fengið stöðvunarvald á lögum er þjóðaratkvæðagreiðsla sjálfvirk afleiðing af synjun hans.


Það sem forseti gerir núna er að hafna tillögu frá Alþingi um staðfestingu á lögum um Icesavesamninginn sem þingið samþykkti með auknum meirihluta atkvæða. Í ljósi þeirrar sagnfræði sem hér var vikið að er ljóst að í synjun forseta felst pólitísk andstaða hans við lögin og vantraust á dómgreind þess ráðherra sem ber ábyrgð á málinu og þess meirihluta sem að baki honum stendur. Hér kemur ekkert gap milli þings og þjóðar til álita né heldur aðrar mismunandi skýringar forsetans á þeim ástæðum sem hann hefur núna fyrir þvi að neita að staðfesta lögin. Þar sem forsetanum var ekki fengið stöðvunarvald á lögum er þjóðaratkvæðagreiðsla næsta skref í Icesave.


Málið er sem sagt aftur og óvænt komið í fangið á þjóðinni sem þarf að skera úr um pólitískan ágreinings Alþingis og forsetans. Þorsteinnn Pálsson fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra orðar þetta svo í Fréttablaðinu 26. þ.m.;
,,Ákvörðun forsetans beinist því einnig gegn Sjálfstæðisflokknum. Hún lýsir vanþóknun forsetans og óvirðingu gagnvart ábyrgum og málefnalegum vinnubrögðum á Alþingi.”


Hvað ber að gera?

Sá dráttur sem orðið hefur á lausn Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga hefur skaðað endurreisn efnahagslífsins. Það er rangt að ,,ekkert hafi gerst” þegar fyrri Icesave-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skuldatryggingarálag hækkaði og hefur verið óviðunandi síðan. Og enn hefur það hækkað eftir yfirlýsingu forsetans og lánshæfismat Íslands hefur að sama skapi minnkað. Matsfyrtækið Moody´s telur að skuldabréf íslenska ríkisins fari í ruslflokk taki þjóðin afstöðu með forsetanum og hafni lögunum um Icesave i þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl n.k. Atvinnuleysi er enn óviðunandi með öllu og óvíst hver þróunin verður ef Icesave á enn að hanga yfir okkur eins og bölský. Hér á Suðurnesjum þekkja menn Icesave eins og þröskuld í vegi allra nýframkvæmda, erlend fjárfesting er einfaldlega ekki í boði meðan málið er óleyst.


,,Það er afar mikilvægt fyrir Ísland að hafa aðgang að erlendu lánsfé auk þess sem traust á Íslandi myndi minnka gríðarlega hafnaði þjóðin samningnum eftir að hafa reynt að semja um málið þrisvar sinnum,” sagði sá virti og óumdeildi hæstaréttarlögmaður Ragnar H. Hall í Kastljósi sjónvarpsins 22. þ.m. Það borgar sig betur að taka þessum samningum og setja málið aftur fyrir sig heldur en að hafna málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, segir hann líka.


Gjaldeyrishöft, óviðunandi skuldatryggingarálag Íslands og lánsfjárfyrirgreiðsla til Íslands sem ekki fæst og er háð lausn á Icesavedeilunni eru ekki til þess fallin að skapa grundvöll stórræða í atvinnuuppbyggingu hér á landi sem er m.a. veigamikil forsenda kjarabóta. Það er því af og frá að ætla að ekkert muni gerast, eins og ekkert hafi gerst, þótt samningurnn falli eins og reynt verður að halda fram. Það höfum við upplifað í raun síðastliðið ár meðan allt hefur verið hér í hægferð. Forseti Íslands hefur enn hægt á ferðinni, a.m.k. um sinn og tekið áhættuna af því að lestin hökti á sporinu næstu misserin og árin ef samningurinn fellur. Það er óviðunandi ábyrgðarleysi.


Nú er málið í okkar höndum. Þá er ekkert annað að gera en að vera ábyrg. Við höfum beðið allt of lengi eftir endurreisninni. Stöndum með Alþingi og samþykkjum Icesave-lögin 9. apríl n.k.


Skúli Thoroddsen
lögfræðingur