Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Samtal um sjávarútveg
Föstudagur 2. desember 2016 kl. 14:33

Samtal um sjávarútveg

Af tilraunum til stjórnarmyndunar á Íslandi berast þær fréttir að einn helsti ásteytingarsteinn séu sjávarútvegsmálin.  Þetta kemur kannski ekki á óvart þegar litið er til umræðunnar í samfélaginu undanfarin misseri og ár.  Hvernig má það vera að af öllum þeim málum sem brenna á þjóðfélaginu nú um stundir skuli sjávarútvegurinn enn vera kjarninn í þrætuepli Landans?

Í gegnum tíðina hefur verið þráttað um sjávarútveg.  Á áttunda áratug síðustu aldar snerust deilurnar um afskipti stjórnmálamanna að úthlutunum úr lánasjóðum sjávarútvegsins.  Á þeim níunda var tekist harkalega á um kvótakerfið.  Síðasti áratugur síðustu aldar fór að mestu í að þrátta um framsal aflaheimilda.  Ekki minnkuðu þræturnar þegar kom fram á nýju öldina en þá var deilt um gjaldtöku af auðlindum.  Enn er rifist og nú um hvort ekki megi herða enn á gjaldtökunni með auknum veiðigjöldum eða uppboði aflaheimilda.

Um fiskveiðistjórnunarkerfið er að sjálfsögðu deilt enn í dag.  Þegar kvótakerfið kom fram í sinni upphaflegu mynd var rekstur í greininni skelfilegur svo ekki sé fastar að orði kveðið.  Mikill taprekstur var af útgerð og vinnslu og forsvarsmenn fyrirtækjanna voru áskrifendur af bitlingum úr ofvöxnu sjóðakerfi og ekki síst reglulegri gengisfellingu gjaldmiðilsins með tilheyrandi búsifjum fyrir almenning í landinu.  Fiskveiðarnar voru ósjálfbærar sem endaði svo með hruni í þorskveiðum seint á síðustu öld.  Lítil hugsun var á hámörkun verðmæta afurðanna - fiski var mokað upp á skömmum tíma síðla vetrar og á vorin enginn möguleiki var að hafa stjórn á gæðum eða koma vörunni í hæsta verð.  Varla þarf að minnast á þræturnar um úthlutun aflaheimilda enda hugsanlega tilefni til deilna þegar úthlutað er takmörkuðum gæðum.  Vandséð er þó hverjir aðrir hefðu átt að fá heimildir ein einmitt þeir sem störfuðu í greininni.  En er ekki mál að linni nú þegar liðið er á fjórða áratug frá þeim gjörningi og árangurinn af stjórnkerfi fiskveiðinu blasir við?

Sú atvinnugrein sem við störfum í núna á lítið sameiginlegt með þeirri sem dró fram lífið í öndunarvél stjórnmálamanna uppúr 1980.  Þær breytingar sem orðið hafa á fyrirkomulagi greinarinnar sl 35 ár eru hreint og beint undirstaða fyrir lífskjörum þjóðarinnar.  Sjávarútvegurinn hefur á sama tíma skapað jarðveg fyrir fyrirtæki af öllu mögulegu tagi smá og stór og sum þeirra eru orðin leiðandi á sínu sviði í heiminum í dag.
 
Á dögunum var haldin árleg Sjávarútvegsráðstefna í Reykjavík – ráðstefnun sóttu yfir 800 manns og einnig var nokkuð um erlenda fyrirlesara og gesti.  Á síðustu og fjölmennustu málstofu ráðstefnunnar gerði fundarstjóri könnun meðal viðstaddra og bað núverandi eða fyrrverandi þingmenn að rétta upp hönd svo hægt væri að átta sig á því hversu mörg þeirra væru mætt á þennan breiða samræðuvettvang greinarinnar.  Það er skemmst frá því að segja að engin hönd kom á loft.  Enginn okkar núverandi eða nýkjörnu þingmanna voru þarna mættir til að kynna sér helstu strauma og stefnur í þessari þróttmiklu atvinnugrein.  Það væri ákjósanlegt ef að ráðamenn þjóðarinnar legðu sig fram um að kynnast greininni og þeim sem í henni starfa.

Það væri líka ákjósanlegt að taka umræðuna út úr þrætubókinni og efna til samtals um sjávarútveg.  Ræðum um það hvað sé gott og hvað megi betur fara. Tölum um markaðssetningu okkar frábæru afurða og hvernig við ætlum að sigrast á okkar fjöldmörgu keppinautum, tölum um sjálfbærni, spjöllum um allar góðu sögurnar sem við getum sagt.  Tölum líka um það hvernig við getum náð sátt um framlag greinarinnar til þjóðarbúsins og gerum það í samhengi við þann raunveruleika sem við okkur blasir. Okkar raunveruleiki býr yfir mun fleiri jákvæðum þáttum en neikvæðum.

Ég held að þeir sem að í greininni starfa séu tilbúnir samtalið  

Þorsteinn Magnússon,
framkvæmdastjóri Ný-Fisks í Sandgerði



SJÁIÐ RÚMLEGA MÍNÚTU KYNNINGU Á NÝJASTA SJÓNVARPSÞÆTTI VÍKURFRÉTTA

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024