Samstaða um flutning Landhelgisgæslunnar
Eftir Björgvin G. Sigurðsson, þingmann Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Oft hefur skortur á samstöðu og ýfingar að ástæðulitlu yfir stóru sem smáu komið í veg fyrir að góð mál gangi fram. Vonandi verður breyting á þessu og stjórnmálamenn beri gæfu til að vinna saman í ríkari mæli. Allavega gefur sú góða samstaða allra þingmanna Suðurkjördæmis og oddvita meirihluta og minnihluta sveitarfélaga á Suðurnesjum um að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja góðar vonir um það.
Um liðna helgi sendum við sameiginlega áskorun til forsætisráðherra og innanríkisráðherra um að hraða ákvarðanatöku um málið og hefja nú þegar flutning stofnunarinnar suður eftir. Innanríkisráðherra var falið að ljúka skoðun á málinu fyrir mánaðarmót og ekki eftir neinu að bíða þar sem mánuðir eru liðnir frá því að það var sett í skoðun. Þá er þingmannahópurinn að vinna að flutningi þingsályktunar um flutning Gæslunnar suður eftir.
Um leið og ég þakka þingmönnunum og sveitarstjórnarmönnunum fyrir samstöðuna um málið vona ég að við náum slíkri samstöðu um fleiri mál. Samstaðan skilaði okkur til dæmis breytingu á lögum um gagnaver fyrir rúmum mánuði. Breytingu sem gerir framhald uppbyggingar gagnaversins á Ásbrú mögulega.
Með líkum hætti þarf að setja niður deilur um HS orku og ná samningi við félagið um lengd nýtingartima á auðlindunum. En tímalengd nýtingarinner er rót deilnanna sem verður að setja niður og ná sátt um. Saman getum við náð góðum árangri í uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra og hyllir t.d. undir eitt slíkt sem er fjárfestingasamningur um kísilverksmiðju í Helguvík.
Þá trúi ég ekki öðru en að HS orka og Norðurál nái saman á næstunni um orkuverð til byggingar álversins í Helguvík. Málið fari úr gerðardómi í Svíþjóð og stafir verði settir undir samning um orkuverð þannig að framkvæmdir fari á fullt innan skamms.
Flutningur Gæslunnar til Reykjanesbæjar er stórt mál sem myndi skipta miklu máli að gengi fram. Kjarni áskorunarinnar um flutning Gæslunnar og sameiningar við eftirstandandi verkefni Varnarmálastofnunar er eftirfarandi:
"Lokið verði hið fyrsta við skoðun á kostum þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og þær væntingar sem Suðurnesjayfirlýsing ríkisstjórnarinnar vakti um flutninginn nái fram að ganga....Fjölmargir kostir fylgja að okkar mati því að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Slæmt atvinnuástand á svæðinu þrýstir á að öllum ákvörðunum sem tengjast starfsemi á því sé hraðað sem kostur er. Miklu skiptir að fyrir liggi ákvörðun og óvissu um framgang málsins eytt.
Á Reykjanesi er húsnæði, flugbrautir, góð hafnaraðstaða og stoðkerfi sem fullnægir þörfum Landhelgisgæslunnar að öllu leyti. Stórt og fullkomið flugskýli er á Ásbrú en árið 2000 var það endurnýjað. Njarðvíkurhöfn getur strax tekið við skipaflota Landhelgisgæslunnar. Frá Reykjanesbæ er stutt á aðalstarfssvæði Landhelgisgæslunnar, hafsvæðið í kringum Ísland. Þá má ætla að aukin starfsemi Landhelgisgæslunnar í kjölfar breytinga á starfsemi Varnarmálastofnunar, kalli á stærra húsnæði og nálægð við þau tæki og tól sem heyra undir hana.
Með flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi ríkisvaldið sýni í verki stuðning sinn við eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum auk þess að gera Landhelgisgæsluna að enn öflugri stofnun til hagsbóta fyrir landsmenn alla.
Samstaða alþingismanna og sveitarstjórnarmanna þvert á stjórnmálaflokka um flutning Landhelgisgæslunnar gefur væntingar um að ákvörðun um flutning stofnunarinnar til Suðurnesja gangi eftir hið fyrsta."