Samstaða þekkingarlausra þingmanna?
Það er athyglisvert að fylgjast með þjóðmálaumræðunni um þessar mundir. Kallað er eftir samstöðu, að stjórn og stjórnarandstaða leggi niður vopnin og sameinist um þau mál sem brenna á þjóðinni. Traust á Alþingi mælist í sögulegu lágmarki og virðing ýmissa talsmanna atvinnulífsins á stjórnmálamönnum er augljóslega engin.
Formaður SVÞ gekk lengst allra og lýsti þeirri skoðun sinni að fyrr myndi frjósa í helvíti en að Alþingi tækist að leysa einhver mál, stjórnmálamenn eyddu öllum sínum tíma í karp í ræðustól og fjölmiðlum vegna misskilinna vinsældakosninga, væru allir reynslulausir og með takmarkaða þekkingu af atvinnulífinu. Þeir myndu aldrei gera nokkurt gagn. Þennan dóm fellir formaðurinn á sama tíma og hún hvetur fólk til samstöðu – reyndar nokkuð skrýtin hvatning.
En mér finnst ágætt að hvatt er til samstöðu, samstaða er nauðsynleg til þess að vinna okkur út úr vandanum og við sjálfstæðismenn höfum hvergi skorast undan í þeim efnum. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt – einbeitum okkur að því sem er í ólagi en látum það í friði sem er í lagi. Mér finnst líka ágætt að hvatt er til að bæði stjórn og stjórnarandstaða sýni ábyrgð, ég mun aldrei skorast undan ábyrgð í stjórnmálum. Það er reyndar ákveðið nýmæli að stjórnarandstaðan sé krafin um slíka ábyrgð – ég minnist þess ekki sérstaklega að kallað hafi verið eftir ábyrgð Vinstri grænna í 18 ára stjórnartíð okkar sjálfstæðismanna sem svo oft er vitnað til.
Í nafni samstöðunnar ætla ég samt sem áður ekki að bera ábyrgð á hverju sem er. Ég ætla ekki að bera ábyrgð á afglöpum ríkisstjórnarinnar í samningum um Icesave og úrræðaleysi vegna skuldavanda heimilanna. Ég ætla ekki að bera ábyrgð á skemmdum á skattkerfinu í nafni norrænnar velferðar, ég ætla ekki að bera ábyrgð á því að grundvallaratvinnuveginum sé rústað og ég ætla ekki að bera ábyrgð á lögum um kynjakvóta. Ég ætla ekki heldur að bera ábyrgð á umsóknarferlinu um aðild að ESB, ég ætla þvert á móti að veita stjórnvöldum allt það aðhald sem ég mögulega get í því ferli.
Við höfum við völd ríkisstjórn sem að a.m.k. nafninu til hefur 34 þingmanna meirihluta, sem sagt meirihlutastjórn. Meirihlutastjórn sem á að taka forystu og bera ábyrgð og getur ekki kastað henni í fangið á stjórnarandstöðunni þegar henni þrýtur afl og dugur. Eins og fjármálaráðherra hefur svo margítrekað hlakkað yfir þá var minn flokkur ekki kosinn til valda í síðustu kosningum, heldur var öðrum falin ábyrgðin á landstjórninni. Það er vissulega mikil ábyrgð í því fólgin að vera í stjórnarandstöðu, en það er engu að síður afar billegt að kenna stjórnarandstöðunni um aðgerðar- og forystuleysi ríkisstjórnarinnar í öllum mikilvægum málum.
Ég skal styðja við öll góð mál, ég skal leggja mig fram um – þrátt fyrir að vera þekkingar- og reynslulaus skv. skilgreiningu formanns SVÞ –að sýna pólitískum andstæðingum sanngirni, vinna af metnaði og heilindum og halda mig fjarri pólitískum skotgröfum. En á sama tíma skal ég líka lofa því að taka allan þann slag sem þarf til þess að berjast gegn illa ígrunduðum og vondum fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Ef menn kjósa að kalla það að ég sé að þvælast fyrir – þá verður svo að vera.