Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Samstaða fyrir allt landið í umferðaröryggi
Föstudagur 8. september 2006 kl. 15:54

Samstaða fyrir allt landið í umferðaröryggi

Framtak Áhugahóps um tvöfalda Reykjanesbraut um baráttu gegn umferðaslysum er aðdáunarverð, en með samstöðu íbúa svæðisins er alveg ljóst að mikill árangur hefur unnist í því verkefni að auka umferðarmenningu, tillitssemi í akstri og vitund fyrir meiri varkárni í umferðinni.Í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum skrifaði Steinþór Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, ferðamálafrömuður og formaður Áhugahópsins mjög athyglisverða grein þar sem hann kynnti stofnun samtaka til að útfæra baráttu Áhugahópsins í umferðarmálum, nú á landinu öllu og Reyknesingar keyra það verkefni undir nafninu Samstaða. Markmiðið er að virkja fólk um allt land til þess að leggja baráttunni lið og sameina hópa áhugamanna undir nafni Samstöðu sem hefur þegar skráð sig með netfangið www.fib.is/samstda. Meiningin er að vinna þetta verkefni í samvinnu við FÍB og  samgönguyfirvöld þannig að þessi frábæra hugmynd er hreinn hvalreki fyrir samgönguyfirvöld til þess að hnykkja á í þessum efnum og virkja áhuga og krafta fólksins í landinu sem vill leggja sitt af mörkum.Upphaflegur aflvaki áhugahópsins var tvöföldun Reykjanesbrautar og það getur varla verið tilviljun að í fyrsta skipti í liðlega tvö ár hafa ekki orðið dauðaslys á þessari fjölförnu leið.

Í grein sinni leggur Steinþór áherslu á það að Samstaða hafi það hlutverk að sameina hópa áhugafólks, virkja grasrótina innan hvers baráttuhóps og stuðla þannig að bættu umferðaröryggi um allt land og  veitir ekki af miðað við hinn sorglega fjölda dauðaslysa og alvarlegra umferðarslysa á hverju ári.Það ber að fagna þessu frumkvæði af Reykjanesi og þeir sem hljóta að fagna fyrst eru samgönguyfirvöld, því enginn getur fúlsað við slíkum liðsauka í  brýnu baráttumáli. Vonandi koma fleiri að þessu verkefni með Samstöðu eins og til dæmis tryggingafélög og aðrir sem telja sér málið skylt,
Áhugahópurinn um tvöfalda Reykjanesbraut úfærir nú baráttu  sína til fækkunar umferðarslysa á landinu öllu og hefur sýnt frumkvæði sem skiptir miklu máli á landsmælikvarða og þess vegna eiga samgönguyfirvöld að taka höndum saman við áhugafólkið og treysta því til frekari útfærslu á þessum góðu hugmyndum.Samgönguráðherra hefur verið að fylgja eftir ýmsum góðum hugmyndum í þessum efnum og það er ekki eftir neinu að bíða að leggja Samstöðu formlega lið.

Árni Johnsen
Höfundur er stjórnmála-, blaða- og  tónlistarmaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024