Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Samningur um 1000 manns á ári
Mánudagur 29. október 2012 kl. 10:12

Samningur um 1000 manns á ári

Ágætur leiðari Páls Ketilssonar um ferðamál í Víkurfréttum vekur okkur til umhugsunar og umræðu um þennan málaflokk sem lengi hefur verið mér hugstæður. Ég eins og margir sjá tækifærin hér á Reykjanesi fyrir þjónustu við ferðamenn. Margt hefur vel verið gert, en við eigum mikið verk óunnið.

Sandgerðingar fengu Garðinn og KADECO með sér í lið að skipuleggja Ferðamannaveg frá Ósabotnum að Garðskaga. Frábær hugmynd sem víða hefur tekist vel og ég var svo heppinn að fá að taka þátt í og kynnast. Það mætti hugsa sér að ferðamannavegurinn væri 8 vita ferð um Suðurnes þegar fram líða stundir. Hringirnir tveir hér á Rosmhvalanesi og síðan hringurinn á Reykjanes og Grindavík, mynda áttu ásamt 8 vitum á hringjunum báðum ef ég tel rétt. Ferðamannavegur er skipulögð leið með merkingum og upplifun, veitingastöðum með matseðil með hráefni úr heimahögum og nálægum fiskimiðum. Sögulegar minjar og merkilegir staðir eru síðan við hvert fótmál. Stuttar ferðir úr Flugstöðinni með farþega sem bíða eftir tengiflugi er kjörinn markhópur fyrir styttri ferðir um nesið.  Vitar eru eftirsóttir af hópi ferðamanna og margar fyrirspurnir berast árlega um hvort hægt sé að gista í vitum á Íslandi. Þar liggja líka tækifæri og hér geta margir hagsmunaaðilar komið að.

Verkefni sem ég og Edda Halldórsdóttir höfum leitt í tvö ár hefur leitt af sér samning um komu 30 til 40 hópa á ári frá og með árinu 2013 um 1000 manns á ári. Hér er um að ræða nemendahópa frá Englandi sem koma að hausti og vori sem hluti af námi þeirra í náttúru og jarðfræði. Með því að vinna í málum og leggja sig fram og hugsa út fyrir rammann næst árangur. Þess naut ég sem bæjarstjóri í Garðinum og þetta er ein afurð af þeirri vinnu með Eddu. Það eiga fleiri verkefni eftir að líta dagsins ljós.

Þessir hópar dvelja í um vikutíma á Suðurnesjum og þegar hafa tveir hópar komið hingað á okkar vegum og varð það framar vonum að þeir kæmu strax á þessu ári. Mikil ánægja hefur verið hjá nemendum, kennurum og foreldrum sem hafa verið í farastjórateymi hópanna. Með allan aðbúnað á gistiheimilum í Garðinum, sundlaugina, aðstöðuna í Fræðasetrinu í Sandgerði og matinn á Vitanum. Bláa lónið, Víkingaheima, Gunnuhver og náttúruna og nú er í undirbúningi tenging hópanna við grunnskóla á Suðurnesjum. Til að nemendur geti unnið verkefni með jafnöldrum sínum íslenskum og efla kynni þeirra í milli. Þá munu hóparnir tengjast væntanlegum Geopark á Suðurnesjum og þeim afurðum sem hann skapar og gefur af sér til ferðaþjónustunnar.

Ég tek því undir með Páli þegar sagt er að við eigum að selja Suðurnesin. Góð orð og hvatning eru til alls fyrst en það eru verkin sem tala. Þannig vinn ég.

Ásmundur Friðriksson
Sækist eftir 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör flokksins í janúar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024