Samkeppnishæfni íslenskra heimila
Í kosningabaráttunni er talað um heimilin eins og eina afmarkaða stærð sem bjarga þurfi með stöðluðum ákveðnum lausnum. Samt eru heimili eins mismunandi og þau eru mörg. Það er ekki verk stjórnmálamanna að bjarga heimilum, þau geta bjargað sér sjálf. Verkefni stjórnmálamanna er að skapa kerfi, umgjörð til að í landinu sé hægt að lifa sómasamlegu lífi. Það á ekki að bæta starfsumhverfi fyrirtækja og auka samkeppnishæfni þeirra án þess að horfa á það í samhengi við samkeppnishæfni heimilanna.
Sá tími á að vera liðinn að íslenskt vinnuafl og íslensk orka sé auglýst á undirverði til erlendra auðhringja. Það á að heyra sögunni til að íslendingar eigi að sætta sig við verri laun og verri kjör bara til að fyrirtækin geti blómstrað og hægt sé að byggja eina stóriðju í viðbót.
Starfsumhverfi heimila og samkeppnishæfni þeirra er ekki góð á Íslandi í dag. Það er sagt að um leið og starfsumhverfi fyrirtækja batni batni starfsumhverfi heimila. En á forgangsröðunin að vera þessi? Þarf ekki að byggja upp starfsumhverfi heimila þannig að íslensk heimili séu samkeppnishæf við önnur lönd. Það þarf að styrkja þær stofnanir sem standa að heimilunum þannig að þær þjóni betur hagsmunum heimilanna.
Hvernig gátum við sætt okkur við að forgangsröðunin í samfélaginu yrði svona?
Inga Sigrún Atladóttir
skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi