Samkeppnisaðili hefur rangt við
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins rituðum grein í síðustu Víkurfréttir til að leggja áherslu á mikilvægi vel launaðra starfa fyrir bæjarbúa og mikilvægan þátt Helguvíkur í því. Við bentum á að fyrsti áfangi sem nú rís hjá United Silicon (USI) er mun minni en sá sem upphaflega var fyrirhugað að reisa og að fyrsta uppbygging Thorsil bætti það í raun upp. Þá bentum við á að eftirlitsstofnanir ríkisins hafa lýst yfir að Thorsil uppfylli allar mengunarkröfur.
Þetta kallar nýr forstjóri USI, samkeppnisaðila Thorsil, staðreyndavillur og sér ástæðu til að rita grein um það í dag.
Nýr forstjóri United Silicon, sem ráðinn var fyrir tæpum fimm mánuðum, er greinilega ekki betur upplýstur um sögu þeirrar stuðningsbaráttu sem við háðum til að koma því verkefni á sem hann er nú í forsvari fyrir. Verkefnið, undir öðrum nöfnum, hefur staðið yfir í 8 ár. Staðreyndin er að í þrígang þurfti að endursemja um verkefnið vegna tafa og samstarfsaðila sem heltust úr lestinni. Alltaf höfðum við þó trú á verkefninu og héldum stórri lóð tilbúinni undir þetta verkefni. Við höfum hrósað frumkvöðlinum fyrir einurð en hörmum að nýr forstjóri saki okkur um rangfærslur um leið og hann fer sjálfur rangt með.
Það er einnig mjög alvarlegt þegar slíkur aðili gengur svo langt til að reyna að skemma opinberlega fyrir samkeppnisaðila á svæðinu.
Það skal ítrekað, sem sagt var í fyrri grein, að upphaflegar áætlanir á vegum forsvarsmanns fyrirtækisins, sem nú heitir United Silicon, gerðu ráð fyrir mun stærri fyrstu uppbyggingu en nú er. Það staðfesta öll okkar skriflegu samskipti til átta ára.
Þá skal enn ítrekað að fyrsti áfangi Thorsil er mun umfangsmeiri en USI. Þetta eru engar staðreyndavillur.
Sem fyrr er það von okkar að USI takist að auka verkefnið í fjóra ofna þrátt fyrir að nú sé aðeins einn í byggingu. Í grein í Viðskiptablaðinu í 25. ágúst s.l. staðfesta forsvarmenn USI þetta sjálfir og stefna á að annar ofn komist í gagnið ekki fyrr en árið 2019. Það er þó óvíst en væri algerlega óviðunandi fyrir Helguvík og Reykjanesbæ ef það væri hið eina sem gerðist í Helguvík.
Líklega er Umhverfisstofnun að ganga frá starfsleyfi fyrir Thorsil þessa dagana á sama tíma og forstjóri USI ritar sín öfugmæli um mengun Thorsil. Við treystum Umhverfisstofnun algerlega til að fara með réttara mál um mengunarvarnir en þessum samkeppnisaðila Thorsil á svæðinu. Hitt er rétt að Umhverfisstofnun hefur hvatt til þess að fram fari sameiginleg og stöðug vöktun á loftgæðum í kringum Helguvík. Slíkt er bæði mikilvægt og ánægjulegt og í takt við þær áherslur sem við sjálfstæðismenn höfum alltaf lagt. Um leið krefst slík vöktun þess að allir aðilar sem starfa innan iðnaðarsvæðisins í Helguvík beiti fullkomnustu mengunarvörnum við framleiðslu sína svo bestur árangur geti náðst. Á það ekki bara við um þá sem síðast koma heldur einnig um þá sem fyrstir fengu leyfi fyrir starfsemi sinni. Mikilvægt er að forsvarsmenn USI staðfesti nú gagnvart íbúum Reykjanesbæjar að þeir muni, líkt og forsvarsmenn Torsil hafa gert, beita öllum tiltækum ráðum og búnaði til að rýra ekki loftgæði í kringum landsvæði Helguvíkur.
Þá er það rangt hjá forstjóranum að loftmengunarvöktun Thorsil komi til af einhverjum sérstökum mengunarvanda. Allar ál- og kísilverksmiðjur eru með ákvæði í starfsleyfi um loftmengunarvöktun. Einnig hans fyrirtæki.
Það er slæmt að aðili sem hefur notið mikils velvilja og stuðnings í bæjarkerfinu skuli bregðast við samkeppni eins og forsvarsmaður USI gerir. Þó fyrirtækið fái lóð í Helguvík getur það ekki vænst þess að sitja eitt að því mikla athafnasvæði sem þar hefur verið skipulagt. Skyldu forsvarsmenn USI hafa tjáð sig með þessum hætti ef um væri að ræða annað verkefni en kísilver?
„Það skal tekið skýrt fram að United Silicon hf. hefur að sjálfsögðu engan áhuga á að taka þátt í almennum umræðum í tengslum við komandi íbúakosningu í nóvember um frekari uppbyggingu stóriðju í Helguvík“, segir í grein forstjórans! Nú dæmi hver fyrir sig: Hvað er forstjórinn annað að gera?
Við sem síðastliðin átta ár höfum barist fyrir og fylgt eftir þessu kísilverkefni Magnúsar Garðarssonar, sem nú gengur undir nafni USI, erum afar undrandi, svo vægt sé til orða tekið, á þessum viðbrögðum og staðreyndavillum nýja forstjórans sem tekur þannig mjög virkan þátt í því að mótmæla samkeppnisaðilanum Thorsil. Má velta því fyrir sér hvort þessi lýsing forstjórans, staðreyndavillur og hræðsluáróður hafi verið undanfari undirskriftasöfnunar.
Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Böðvar Jónsson og Baldur Guðmundsson