Samgöngumál á Reykjanesi - yfir 20000 íbúar árið 2008
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var haldinn í glæsilegu húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja þann 19. nóvember s.l. og er ástæða að þakka stjórn sambandsins, framkvæmdarstjóra og frummælendum sérstaklega fyrir góðan fund.
Á fundinum lagði Samgöngunefnd SSS fram áfangaskýrslu um samgöngumál á Reykjanesi sem er fyrsta skýrslan sem lögð er fram um þetta efni á þessum vettvangi. Tilgangur skýrslunnar er að taka saman verkefni sem í gangi eru og forgangsraða öðrum enda lykilatriði að niðurstaða samgöngunefndar og sveitastjórnarmanna sé skýr og einróma þannig að árangur náist með tryggu og jákvæðu samstarfi við þingmenn, samgönguyfirvöld og Vegagerð. Þessum aðilum er hér með þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf og þann skilning sem þeir hafa haft á uppbyggingu svæðisins og þeirri þörf sem hún skapar.
Segja má að ákveðinn vendipunktur sé í samgöngumálum á svæðinu enda fjölmörg verkefni nú á framkvæmdarstigi s.s. annar áfangi að tvöföldun Reykjanesbrautar, Suðurstrandaveg, Nesveg frá Grindavík að Reykjanesi, Hafnarveg við Hafnir og Ósabotnaveg og því mikilvægt að forgangsraða næstu verkefnum með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Lítur nefndin þannig á að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni í gegnum Hafnarfjörð verði framkvæmd samhliða þeim kafla sem nú er í vinnslu þ.e. Strandarheiði að Fitjum um leið og skipulagsyfirvöld í Hafnarfirði hafa samþykkt legu vegarins í gegnum Hafnarfjörð í samstarfi við Vegagerð Ríkisins. Þá er þörf á nýjum mislægum gatnamótum við Hæðahverfi vegna örar uppbyggingar og lýsingu stofnvega. Að þessu sögðu var samþykkt einróma á fundinum að framkvæmdir við Suðurstrandaveg verði settar í algjöran forgang en ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt að fjögur hundruð milljón króna framlag til vegarins vegna sölu Símans. Þá skoruðu sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum á Alþingi að þær 300-400 milljónir sem spöruðust vegna hagstæðs útboðs á öðrum áfanga Reykjanesbrautar verði þegar varið til framkvæmda í kjördæminu.
Víst er að tvöföldun Reykjanesbrautar hefur skipt sköpum í þeirri gríðarlegu uppbyggingu og fjölgun íbúa sem nú á sér stað á Reykjanesi öllu en fjölgun íbúa á þessu ári er vel yfir fimm prósent og allt sem bendir til að sú fjölgun haldi áfram. Þannig má reikna með að íbúar Reykjanes verði vel yfir 20000 manns þegar árið 2008. Ljóst er að Reykjaness er að koma sterkt inn sem næsta uppbyggingarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar og er þegar orðin mjög eftirsóttur íbúakostur. Þessi mikla fjölgun sem og gríðarleg fjölgun ferðamanna sem fara um Keflavíkurflugvöll kalla á skilvirk vinnubrögð yfirvalda og skýra forgangsröðun verkefna. Frekari upplýsingar úr skýrslunni má finna á vef Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum www.sss.is
Framundan eru tækifæri til sóknar á Reykjanesi. Þar verðum við öll að standa saman og tryggja svæðinu bjarta framtíð.
Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar og formaður Samgöngunefndar SSS