Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Samfylkingin segir upp 700 manns
Mánudagur 18. október 2004 kl. 16:18

Samfylkingin segir upp 700 manns

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður og málefnastjóri Samfylkingarinnar, sendir skýr skilaboð til Bandaríkjamanna og Íslendinga: Flugvélarnar burt af Keflavíkurflugvelli! Svo bætir hún við að Íslendingar taki við rekstrinum. Og þá má spyrja: Hvaða rekstri? Jú, hinum almenna rekstri á flugbrautum.

Með þessum boðskap liggur stefna Samfylkingarinnar ljós fyrir. Í fyrsta lagi telja þau engar varnir þurfa hér á landi. Við eigum að vera eina þjóð veraldar við slíkar aðstæður. Hryðjuverkaógnin, af sjó eða lofti, er t.d.ekkert inni í myndinni á þeim bænum þó allar aðrar þjóðir efli sig gagnvart þeirri vá. Í öðru lagi eru skilaboðin skýr til þeirra 700 einstaklinga sem starfa á vellinum. Stöðinni verður lokað. Kjarninn í varnarstarfsseminni lýtur að flugvélunum. Séu þær sendar brott er sá grundvöllur horfinn og þar með flest störfin. Engum blandast hugur um að með þessum skilaboðum er fylgst. Þau eru ekki til þess fallin að styrkja stöðu Íslands í samningum við Bandaríkjamenn.

Í nýlegri heimsókn bandarískra þingmanna hingað (m.a. John McCain og Hillary Clinton) kom fram skýr skilningur á varnarhlutverki Íslands. Ríkisstjórnin hefur lagt á þetta ríka áherslu í viðræðum sínum við bandarísk stjórnvöld og fengið jákvæðar undirtektir. Samfylkingin er á öndverðum meiði. Rétt er að velta upp áhrifum þessarar stefnu Samfylkingarinnar á öryggishagsmuni Íslands, atvinnu Suðurnesjamanna, tekjur sveitarfélaganna og þannig má áfram telja. Vonandi verður samningum um framtíð stöðvarinnar lokið fyrr en síðar þannig að óvissu verði eytt og ekki þurfi að óttast að rödd Samfylkingarinnar í þessum efnum verði tekin og alvarlega. Til þess eru of miklir hagsmunir í húfi.

Jón Kr. Kristinsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024