Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 28. apríl 2003 kl. 11:26

Samfylkingin og Varnarliðið

Eftir Birgi Þórarinsson

Frambjóðendur Samfylkingar hér í Suðurkjördæmi hafa nú síðustu daga spurt, bæði í ræðu og riti, hvað það væri sem gæfi til kynna að Samfylkingin vildi varnarsamninginn við Bandaríkin feigan. Þessari spurningu þeirra skal ég svara.Yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar

Margsinnis hefur komið fram í fjölmiðlum að Ingibjörg Sólrún, fyrrverandi borgarstjóri, sé talsmaður Samfylkingarinnar þrátt fyrir það að hún sé ekki formaður hennar. Ingibjörg hefur verið mjög áberandi í kosningabaráttunni. Reyndar svo áberandi að halda mætti að hún væri ein í framboði. Talsmaður er sá sem talar fyrir hópi fólks og kemur skoðunum hópsins á framfæri það er óumdeilt. Talsmaðurinn, Ingibjörg Sólrún, ritaði grein í Morgunblaðið þann 15.apríl sl. Þar sem hún gerir grein fyrir utanríkisstefnu Samfylkingarinnar. Í greininni segist hún “gera ráð fyrir” framhaldi á varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Einhver hnútur er nú í maga Ingibjargar í þessari yfirlýsingu þykir mér. Þetta minnir mig á borgarstjórann sem gekk bak orða sinna 6 mánuðum eftir að loforð voru gefin í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor og kenndi síðan öðrum um eigin syndir. Það mál minnir mig síðan á eitt af slagorðum Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Það mun vera “heiðarleiki”. Æfingin skapar meistarann. Þannig væri það auðvelt mál, fyrir borgarstjórann sem hætti í Ráðhúsinu og dreymir nú um að komast í Stjórnarráðið, að reka varnarliðið úr landi og kenna síðan Bandaríkjamönnum um allt saman. Reynslan sýnir að orðum Ingibjargar er einfaldlega ekki treystandi í þessu máli.

Eitt þúsund manns missa vinnuna

Ef Ingibjörgu Sólrúnu líkar síðan ekki afstaða Bandaríkjamanna hverju sinni í alþjóðamálum “þá munu leiðir skilja” eins og hún kemst sjálf að orði í áðurnefndri grein. Það hlýtur þá að þýða að hún muni slíta varnarsamstarfinu við Bandaríkin og það hefði hún sjálfsagt gert vegna Íraksmálsins, hefði hún verið við stjórnvölin. Ekki er hægt að leggja annan skilning í orð hennar. Hvernig horfir málið þá við okkur Suðurnesjamönnum? Það er einfalt. Eitt þúsund manns munu missa hér vinnuna. Neyðarástand myndi skapast í atvinnumálum Suðurnesja. En Ingibjörg er ekki ein um þessa afstöðu. Hún á sér fleiri stuðningsmenn í málinu. Forystusveit Samfylkingarinnar er fyrrum Alþýðubandalagsfólk og yfirlýstir herstöðvarandstæðingar. Má þar nefna efsta mann á lista þeirra hér í Suðurkjördæmi, Margréti Frímannsdóttur, sem nú óskar eftir stuðningi Suðurnesjamanna í kosningunum. Fróðlegt væri að sjá hvernig Margrét myndi bregðast við samdrætti hjá varnarliðinu.

Stjórnað af fyrrum Alþýðubandalagsfólki

Það er deginum ljósara að stærsti vinnustaðurinn hér á Suðurnesjum, Varnarstöðin, er í verulegri hættu verði Samfylkingin við stjórnvölin eftir kosningar. Afar hæpið er að Samfylkingin muni sporna við frekari samdrætti í starfsemi varnarliðsins. Þvert á móti er borðliggjandi, miðað við yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar og pólitískan bakgrunn margra samfylkingarmanna, að þeir koma til með að að fagna öllum samdrætti. Verði síðan Vinstri grænir í brúnni með Samfylkingunni að loknum kosningum verður fögnuðurinn enn meiri. Yfirlýsingargleði Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu þann 15. apríl sl. um varnarsamstarfið við Bandaríkin er fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart atvinnumálum á Suðurnesjum. Með “haltu mér, slepptu mér” framsetningu sinni í garð varnarliðsins setur hún atvinnuöryggi hundruða fjölskyldna í hættu. Þó svo að einn til tveir frambjóðendur Samfylkingar séu hlynntir varnarsamstarfinu þá er alveg ljóst hver ræður ferðinni í þeim flokki. Samfylkingunni er stjórnað af fyrrum Alþýðubandalagsfólki. Það verða hinir fáeinu kratar sem eftir eru í Samfylkingunni að sætta sig við. Henni er stjórnað af herstöðvarandstæðingum. Þetta getur Samfylkingin ekki falið nokkrum dögum fyrir kosningar. Þetta hefur Ingibjörg Sólrún opinberað.

Stuðningslistinn

Frægt er orðið að Ísland var sett á lista yfir þau ríki sem styddu Bandaríkin og Breta í því að koma Saddam Hussein, holdgervingi hins illa, frá völdum. Stjórnarandstaðan hér á landi hefur farið hamförum í þessu máli eins og kunnugt er. Rétt eins og íslenskur her væri í fremstu víglínu í Bagdad. Það er umhugsunarefni hver hefði nú verið framtíð Varnarstöðvarinnar, sem kostar Bandaríkjamenn verulegar fjárhæðir á ári, ef þeim hefði verið bannað að nota stöðina til millilendinga á leið sinni til Persaflóa.

Í góðum höndum Framsóknar

Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, dagana 21. 23. febrúar sl. ítrekaði þingið mikilvægi varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Flokkurinn leggur einnig áherslu á aukna þátttöku Íslendinga í starfsemi þess. Það myndi þýða fleiri störf. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sl. 8 ár haldið mjög vel á málefnum varnarliðsins. Tekist hefur að sporna við frekari samdrætti í starfsemi þess og trúverðugum vörnum landsins haldið uppi. Halldór Ásgrímsson sýndi það í hinu viðkvæma Íraksmáli hversu ábyrgur og skynsamur stjórnmálamaður hann er. Hann sýndi hversu staðfastur og traustur hann er í þeim pólitísku stormum sem geta geisað hverju sinni. Framsóknarflokkurinn sveiflast ekki til og frá í skoðunum, á altari pólitískra vinsælda, eins og samfylkingarmönnum er tamt. Tryggjum trúverðugar varnir landsins og áframhaldandi stöðugleika í málefnum varnarliðsins. Varðveitum þau 1700 störf sem varnarliðið veitir Íslendingum. Suðurnesjamenn þurfa á að halda öflugum talsmanni áframhaldandi varnarsamstarfs við Bandaríkin. Tökum enga óþarfa áhættu. Styðjum Framsóknarflokkinn í kosningunum þann 10. maí nk. Hann hefur sýnt það og sannað að hann er traustsins verður. Þú kjósandi góður hefur áhrif. Þitt atkvæði er mikilvægt.


Höfundur er varaoddviti Vatnsleysustrandarhrepps og frambjóðandi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024