Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Samfylkingin og sjávarútvegurinn
Föstudagur 17. apríl 2009 kl. 10:44

Samfylkingin og sjávarútvegurinn

Kvótakerfið og nýting auðlinda hafsins er málefni sem lítil sátt er um. Núverandi handhafar kvótans eru eðlilega hræddir við allar breytingar á því kerfi sem nú er við lýði. Þeir hafa byggt upp fyrirtæki sín með fyrirfram gefnum forsendum. Margar  hliðar eru á kvótakerfinu en þær snúa m.a. að mannréttindum, nýtingu auðlinda hafsins, rekstri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja, framsali aflaheimilda og  nýliðun í greininni. Síðast en ekki síst hefur umræðan um kvótakerfið og frjálst framsal aflaheimila snúist um það, að nokkur fyrirtæki og eintaklingar hafi  fjöregg  byggðarlaganna í  höndum sér og hafa þar með  það vald að sigla með kvótann og lífsviðurværi byggðanna í burtu. Byggðarlög vítt og breytt um landið hafa nú þegar sopið seyðið af þessu fyrirkomulagi og það er ljóst að með þessum hætti er ekki skapaður traustur grunnur fyrir byggðir landsins  til framtíðar

Mismunandi reynsla af núverandi kerfi
Það er enginn ein lausn til í fiskveiðistjórnun sem tryggir öllum sanngjarna niðurstöðu.  Um árabil hefur það hins vegar verið þannig að stórum hluta þjóðarinnar hefur sviðið óréttlætið sem kvótakerfið hefur skapað. Fólki hefur mislíkað sú auðsöfnun , sem átt hefur sér stað hjá nokkrum útvöldum einstaklingum  þegar þeir hafa framselt aflaheimildir sínar – aflaheimildir sem eiga að vera sameign þjóðarinnar. Í grunninn er þjóðin ósátt með braskið sem viðgengist hefur á undanförnum árum  sem í mörgum tilfellum hefur haft mjög neikvæð áhrif á afkomu einstakra byggðarlaga víðsvegar um land – á meðan önnur hafa grætt.

Því verður hins vegar ekki á móti mælt að mörg útgerðarfyrirtæki hafa starfað innan þessa kerfis frá stofnun og lagt út í mikinn kostnað til þess að bæta kvótastöðu sína. Útgerðarmenn og hagsmunaaðilar í Vestmannaeyjum sem og í fleiri byggðarlögum í Suðurkjördæmi hafa staðið saman og staðið sig vel í því að halda kvótanum í heimabyggð. Íbúar þessara byggðarlaga hafa hins vegar enga tryggingu fyrir því - aðra en  traust sitt á viðkomandi útgerðarmönnum  - að svo verði áfram um ókomna tíð. Hættan á því að  kvótanum og fjöregginu verði siglt í burtu er alltaf fyrir hendi í núverandi fyrirkomulagi.

Sáttagjörð í Sjávarútvegi
Mín skoðun er sú að allar breytingar á greininni eiga að vinna í sem mestri samvinnu við greinina sjálfa. Það er mín von að  strax að loknum kosningum setjist hagsmunaðilar saman til borðs og standi ekki upp fyrr en ásættanleg lausn er fundin. Það er ekki hægt að bíða  lengur með að taka á  málinu,  tryggja útgerð  og fiskvinnslu umhverfi sem ekki er í upplausn fyrir hverjar kosningar og  tryggja byggðum landsins örugga aðkomu að auðlindum sjávar. Tryggja nýliðun í greininni  og  verndun fiskistofnanna sem var upphaflegt markmið kvótakerfisins. Þess vegna leggur Samfylkingin til sáttagjörð í Sjávarútvegi – svo treysta megi undirstöður sjávarútvegsins til framtíðar.

Til allrar hamingju hafa aflabrögð verið góð undanfarið og það ætti enginn að velkjast í vafa um nauðsyn sjávarútvegs á Íslandi til öflunar gjaldeyristekna fyrir raunveruleg verðmæti. Þessari  atvinnugrein  þurfum við að hlúa að og  tryggja áframhaldandi vöxt hennar.


Guðrún Erlingsdóttir
Vestmannaeyjum
Höfundur skipar 5. sæti
á lista Samfylkingarinnar
í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024