Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 1. apríl 2004 kl. 16:10

Samfylkingin í Reykjanesbæ ályktar um D-álmu HSS

Á aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ sem haldinn var 31. mars var Eysteinn Eyjólfsson endurkjörinn formaður. Með honum í stjórn voru kjörin þau Vilhjálmur Skarphéðinsson, Stefán Ólafsson, Sigríður Lára Geirdal og Eðvarð Þór Eðvarðsson. Að loknum aðalfundarstörfum tóku við fjörugar umræður um bæjarmál  og heilbrigðismál á Suðurnesjum. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:
Aðalfundur Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ haldinn á Víkinni 31. mars 2004 lýsir áhyggjum yfir því ástandi sem skapast hefur í málefnum aldraðra sjúkra á Suðurnesjum, en nýleg dæmi eru um að þeir hafi verið fluttir nauðungarflutningum í annað sveitarfélag. Frá upphafi umræðna um D-álmuna var gert ráð fyrir því að hún vistaði aldraða sjúka.  Samkvæmt síðustu upplýsingum má gera ráð fyrir sjötíu öldruðum á biðlistum fyrir vistun á dvalar- eða hjúkrunarstofnun, á sama tíma er D- álman ekki notuð í það sem hún var byggð fyrir. Eftir að stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður með lagabreytingu hafa  heimamenn enga aðkomu að ákvarðanatöku um þá þjónustu sem veitt er. Forstjóri og þeir sérfræðingar sem með honum vinna hafa sitt umboð beint frá ráðuneyti heilbrigðismála.  Enn alvarlegra er ástandið eftir að flestir starfsmenn í stjórnunarstöðum sem hér búa hafa látið af störfum og fólk sem ekki þekkir til aðstæðna heldur eitt um stjórnartaumana. Sveitarstjórnarmenn verða að berjast fyrir því að íbúar svæðisins njóti þeirrar grundvallarþjónustu sem gera verður kröfu um í nútíma samfélagi. Aðalfundur Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ skorar á ráðherra heilbrigðismála að stofna til umræðna um framtíðarþróun heilbrigðis- og öldrunarmála á Suðurnesjum í þeim tilgangi að skapa sátt um þann mikilvæga málaflokk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024