Samfylkingin: Afleiðingar óskynsamrar fjármálastjórnar
Samantekt á helstu niðurstöðum ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 opinberar afleiðingar óskynsamrar fjármálastjórnar meirihluta sjálfstæðismanna á undanförnum árum. Skuldir bæjarsjóðs hafa meira en fimmfaldast frá árinu 2002, úr rúmlega 5 miljörðum í tæpa 29 miljarðarða nú. Þá skuldar bærinn með samstæðu alls 43 milljarða. Þar vegur mest fimmföldun skulda Reykjaneshafnar frá 2002 úr 1,2 milljörðum í tæplega 6 milljarða nú, segir í bókun Samfylkingarinnar vegna ársreikninga ársins 2010.
Ljóst er að stóraukin skuldsetning Reykjanesbæjar síðustu kjörtímabilin hefur bundið sveitarfélagið skuldabagga sem mun hefta framfarir og rekstur til langs tíma. Skuldirnar hvíla þungt á bæjarsjóði sem og b-hluta fyrirtækja bæjarins og ljóst er að bæta þarf eiginfjárstöðu margra dótturfyrirtækja Reykjanesbæjar eins og t.d. Fasteigna Reykjanesbæjar og Reykjaneshafna en taprekstur hefur verið viðvarandi á báðum fyrirtækjum frá árinu 2002. Eigið fé fyrirtækjanna beggja er neikvætt og ljóst er að leggja þarf mikið fé til reksturs á næstu árum.
Á síðustu árum hefur verið mikill samdráttur í rekstri Reykjanesbæjar, hagrætt hefur verið eins og mögulegt er, eignir seldar, laun og starfshlutfall starfsmanna skert. Aðgerðirnar hafa skilað árangri í rekstri sveitarfélagsins en á sama tíma hefur álag aukist á starfsfólk og er ljóst að við svo verður ekki búið öllu lengur. Bæta þarf bæði aðstöðu starfsfólks og hækka starfshlutfall þannig að hagur starfsmanna batni og það eitt og sér mun skila sér í bættum rekstri til framtíðar.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar taka undir ábendingar endurskoðenda bæjarins vegna ársreiknings Reykjanesbæjar varðandi fjárhagsstöðu og lausafjárvanda bæjarsjóðs,
Reykjaneshafnar og Fasteigna Reykjanesbæjar ehf. og óvissu um rekstrarhæfi vegna þess.
Mikilvægt er að meirihluti Sjálfstæðismanna taki sér nú rögg og taki mark á athugasemdum endurskoðenda og minnihluta svo koma megi í veg fyrir skipbrot bæjarsjóðs. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru boðnir og búnir til þeirrar vinnu sem fyrr.
Friðjón Einarsson
Guðný Kristjánsdóttir
Eysteinn Eyjólfsson