Samfylkingargleraugun
Í aðsendri grein Friðjóns Einarssonar, oddvita Samfylkingarinar í Reykjanesbæ, sem birtist á vef Víkurfrétta, 1. júní sl. gagnrýnir Friðjón Árna Sigfússon bæjarstjóra og segir hann „taka sér skáldaleyfi til að túlka fjárhagsstöðu bæjarsjóðs“. Segir Friðjón að bæjarsjóður skuldi 33 milljarða króna sem komi fram í ársreikningi Reykjanesbæjar þegar lesið er með réttum gleraugum.
Hið rétta er að skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs Reykjanesbæjar voru um síðustu áramót kr. 25,8 milljarðar króna sem vissulega er há tala en þó um fjórðungi lægri en sú sem Friðjón heldur fram. Tæplega 18 milljarðar af upphæðinni eru skuldbindingar vegna leigusamninga og ábyrgðir vegna lífeyrisréttinda starfsmanna Reykjanesbæjar sem lækka munu um 16-17% á þessu ári. Eftir standa þá 7,8 milljarðar sem eru hinar raunverulegu skuldir bæjarsjóðs við banka, ríki og fjármálastofnanir.
Sjálfstæðismenn hafa bent á að gangi eignasala á árinu 2012 eins og vonir standa til gæti bæjarsjóður greitt upp allar skuldir bæjarsjóðs við banka og fjármálastofnanir á þessu ári. Það er einfaldlega staðreynd sem hvorki þarf skáldaleyfi eða frjálslega túlkun til að finna.
Ósannindi Friðjóns um skuldastöðuna eru hins vegar áberandi og ámælisverð og vekja upp spurningar um hvers vegna bæjarfulltrúinn gerir meira úr skuldum sveitarfélagsins en raunverulega er. Kannski eru þetta bara Samfylkingar-gleraugun?
Böðvar Jónsson
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
Á myndinni að ofan er Böðvar í pontu en Friðjón Einarsson honum á hægri hönd. Gunnar Þórarinsson, form. bæjarráðs Reykjanesbæjar hinum megin.