Samfylking sængar með óháðum í Sandgerði
Samfylkingarfélag Sandgerðis og K-listi Óháðra borgara hafa náð samkomulagi um sameiginlegt framboð til bæjarstjórnar í Sandgerðisbæ í komandi bæjarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010. Þar með er endurvakið farsælt samstarf Óháðra borgara og jafnaðarmanna í Sandgerði sem hafa sameiginlega verið leiðandi aðili í stjórn bæjarfélagsins um langt árabil. Skipuð hefur verið sameiginleg undirbúningsnefnd sem mun útfæra nánar þær hugmyndir og tillögur sem aðilar hafa komið sér saman um. Gert er ráð fyrir því að haldið verði prófkjör við val á framboðslista og samhliða því muni stuðningsfólk framboðsins velja því listabókstaf.
Sameiginleg tillaga viðræðunefnda Samfylkingarfélags Sandgerðis og K – lista Óháðra borgara um samstarf hefur verði samþykkt með formlegum hætti af báðum aðilum. Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi bæjarmálaráðs Samfylkingarfélagsins hinn 9. janúar sl. og verður send aðalfundi félagsins, sem haldinn verður fljótlega, til staðfestingar. Óháðir borgarar samþykktu svo tillöguna samhljóða á fundi sínum hinn 14. janúar sl.
Í tillögunni um sameiginlegt framboð er m.a. gert ráð fyrir eftirfarandi atriðum:
Að aðilar skipi 6 manna undirbúningsnefnd þar sem hvor aðili skipar 3 fulltrúa.
Að haldið verði prófkjör við val á framboðslista samkvæmt reglum sem aðilar hafa náð samkomulagi um.
Að stuðningsfólki sameiginlegs framboðslista verði gefinn kostur á að velja framboðinu listabókstaf, samhliða prófkjöri.
Að fagleg sjónarmið ráði við stefnumótun í málefnavinnu sameiginlegs framboðs og taki mið af fjárhagslegri stöðu og getu á hverjum tíma. Þá er gert ráð fyrir að hugsjónir jafnaðarstefnunnar eigi öflugan málssvara og ráðandi aðild að stjórn Sandgerðisbæjar til framtíðar og að góð tengsl verði við Samfylkinguna á landsvísu.
Að samstarfsaðilar mætist á jafnræðisgrundvelli og að sameiginlegt framboð allra jafnaðarmanna og óháðra borgara sem vilja styðja framgang þess í Sandgerðisbæ, sé ótvírætt rétt leið til að ná sem bestum árangri og settum markmiðum.
Undirbúningsnefnd mun taka strax til starfa og útfærir hún nánar þær hugmyndir og tillögur sem aðilar hafa komið sér saman um. Nefndina skipa eftirtaldir aðilar: Grétar Sigurbjörnsson, Guðlaug Finnsdóttir og Sigurður Þorleifsson frá Samfylkingu og Árný Hafborg Hálfdánsdóttir, Birgir Haraldsson og Þjóðbjörg Gunnarsdóttir frá Óháðum borgurum. Nefndin mun senda frá sér nánari upplýsingar og fréttir um framgang mála þegar ákvarðanir um hin ýmsu atriði liggja fyrir.
Sandgerði, 15. janúar 2010,
Samfylkingarfélagið í Sandgerði
K-listi Óháðir borgarar