Samfélag í sókn flokkar úrgang
Í okkar nútíma neyslusamfélagi þar sem mikið fellur til af úrgangi er nauðsynlegt að horfa til þeirra möguleika sem í boði eru til að farga eða endurvinna allt það magn af „rusli” sem kemur frá heimilum og fyrirtækjum hér á svæðinu.
Þar sem brennslustöðin okkar Kalka hefur ekki undan að brenna úrgangi sem til hennar berst hefur verið ákveðið að hefja flokkun á úrgangi í sveitafélögum á Suðurnesjum.
Einni flokkunnartunnu verður komið fyrir við hvert heimili ásamt því að vera með eina tunnu fyrir almennt sorp. Í flokkunartunnuna má t.d. setja: umbúðarplast, bylgjupappa, sléttan pappa, dagblöð, tímarit, drykkjarfernur og minni málmhluti. Allt þetta hráefni er endurvinnanlegt og í þeim liggja nokkur verðmæti. Þess vegna er mikilvægt að minnka sóunina og setja endurvinnanlegu efnin í hringrásina og nota þau aftur.
Okkar von er sú að allir líti þetta verkefni jákvæðum augum og taki þátt í að flokka þann úrgang sem fellur til á heimilum og jafnvel á vinnustöðum hér á svæðinu.
Markmið Samfylkingarinnar er að stefna að því að Reykjanesbær dragi sem mest úr notkun sinni af plastumbúðum og einnota umbúðum í takt við markmið Evrópusambandsins um að allar umbúðir eigi að vera endurnýjanlegar eða endurvinnanlegar fyrir árið 2030.
Það er ekki nóg að flokka rusl, heldur þarf að gæta þess að það rati í viðeigandi ruslatunnu en endi ekki sem rusl á víðavangi. Frambjóðendur Samfylkingarinnar ætla að týna rusl á Ásbrú sunnudaginn 6. maí og er mæting við Andrews theater kl: 12.30. Við hvetjum alla bæjarbúa með áhuga á hreinu og fallegu umhverfi að koma með okkur og týna rusl, eða gera það í sínu nærumhverfi. Hreinn bær er fallegur bær. Samfylkingin vill tryggja samfélag í sókn, á öllum sviðum.
Bjarni Stefánsson, málarameistari,
skipar 18. sæti á lista Samfylkingar og óháðra fyrir kosningar 2018.