Sameinuð stöndum vér
Undirritaður vill skora á sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum um að standa saman um öll þau brýnu málefni sem að okkar samfélagi snúa. Þegar maður les um þau ágreiningsmálefni sem karpað er um núna varðandi sorpmálin langar mig til að benda ykkur á eitt verkefni sem þið ættuð að hugleiða af gaumgæfni. Vinnið sameiginlega að því að umhverfisvæna öll sveitarfélög á Suðurnesjum, eflið sameiginlega nýja og betri endurvinnsluhætti með því að hvetja alla til þátttöku í þeim efnum og sjáið til, Suðurnesin verða umhverfisvænsta og heilbrigðasta landssvæði til að búa á. Við verðum öfunduð af öllum hvernig við breyttum rétt í þessum efnum og lífskjör okkar allra verða betri.
Suðurnesjamenn, stöndum saman og breytum rétt, núna er tækifærið að standa saman, héðan af Suðurnesjum á að koma fyrirmyndin af þeim ávinningi sem heilnæmt og umhverfisvænt samfélag snýst um. Það hefur aldrei truflað mig neitt sérstaklega þó að sum málefni í umhverfismálum gangi hægar fyrir sig að verða að veruleika en önnur en núna finnst mér rétti tíminn til að setja kraft í betri ímynd og hreinleika. Ef allir tækju sig til og tækju til hendinni í grenndinni væri strax unnið mikið þrekvirki.
Ágæta sveitarstjórnafólk og aðrir Suðurnesjamenn enn og aftur setjum okkur háleit markmið og stöndum saman, þrífum Reykjanesskagann okkar og göngum vel um hann til framtíðar öðrum til eftirbreytni og okkur öllum til aðdáunar.
Með vinsemd og virðingu
Tómas J. Knútsson formaður Bláa hersins