Sameining Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslunnar
Nú er í undirbúningi sameining Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslunnar og það eitt og sér er stórmerkilegur atburður, þar sem öll varnarmál okkar eru þar með sett undir sama hattinn. En stærsti viðburðurinn fyrir okkur Suðurnesjamenn er að með sameiningunni fáum við hingað á svæðið Landhelgisgæslu Íslands. Um það er ekkert nema gott að segja og ég lýsi yfir mikilli ánægju með þá vinnu sem þeir Björgvin G. Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson hafa lagt í til að koma þessum málum í þennan farveg.
Sameining þessara tveggja stofnana hefur verið mér mikið hugðarefni undanfarna mánuði, eða síðan þetta kom upp í kosningabaráttunni í apríl sl. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt væri að tryggja að aðstaðan verði sem allra best fyrir þessa nýju sameinuðu stofnun á okkar svæði til að sýna að eftir baráttu margra ára var bara allan tímann best að vera á Suðurnesjunum.
En hvað getum við gert til að tryggja að aðbúnaðurinn verði sem allra bestur fyrir stofnunina?
Ég hef velt þessum málum mikið fyrir mér og margar misgóðar hugmyndir hafa sprottið upp í kollinum en þó var ein hugmynd sem virtist lifa talsvert lengur en allar hinar. Hugmyndin kom aftur og aftur upp í hugann og ég hef verið að íhuga hvort hún gæti gengið.
Hugmyndin er frekar einföld og gæti leyst ýmsan vanda. Þannig er nefnilega mál með vexti að Reykjanesbær á fimm hafnir. Væri ekki þjóðráð að veita Landhelgisgæslunni óskertan aðgang að t.a.m. Njarðvíkurhöfn?
Hvort sem það yrði gert í formi sölu, leigu eða hvað annað, það skiptir ekki öllu máli. Bæði væri þarna kjöraðstaða fyrir skipaflota Gæslunnar og á sama tíma væri hægt að skapa tekjur til Reykjaneshafna sem skrimta að því er virðist fyrir náð og miskunn Almættisins.
Ólíklegt er að aðrar hafnir myndu henta betur við fyrstu sýn, án þess að sá sem hér skrifar sé einhver sérfræðingur í hafnamálum. En það virðist blasa við þessa stundina a.m.k. að þarna væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Bæði gætum við veitt Landhelgisgæslunni alla þá þjónustu sem þeir þarfnast á nánast sömu torfunni og svo gætu þetta verið auknar tekjur til Reykjaneshafna, hvort sem það væri í formi sölu eða leigu. Það er sérfræðinganna að skoða.
Hjörtur M Guðbjartsson,
Höfundur er formaður Uglu – Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum