Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sameining til góðs?
Föstudagur 9. janúar 2009 kl. 11:28

Sameining til góðs?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Björni Ingi Knútsson skrifar:

Samkvæmt viðtali sem Víkurfréttir áttu við samgönguráðherra sem tekið var á fyrsta starfsdegi Keflavíkurflugvallar ohf gefur hann til kynna að frekari sameiningar séu á döfinni innan vébanda samgönguráðuneytisins. Nú skal skipa nefnd og skoða sameiningu fyrrnefnds félags og Flugstoða ohf sem er félag sem rekur alla aðra flugvelli og flugumferðaþjónustu á Íslandi.
 
Í krepputíð sem þessari þegar ríkisútgjöld skulu skorin niður þá ætti allur rekstur hins opinbera að vera til skoðunar líkt og einkafyrirtæki stór og smá þurfa að gera. En hvaða ávinningur skyldi vera í sameiningu þessara tveggja opinberu hlutafélaga? Án efa má ná fram margvíslegri rekstrarlegri hagræðingu því um margt þá sinna þessi fyrirtæki sömu verkefnum, td á sviði flugleiðsögu, öryggismála og annara rekstrarmála. Í krepputíðinni þá upplifum við samdráttarskeið, fyrirtæki grípa til uppsagna starfsfólks, draga úr rekstrarútgjöldum og leggja af óarðbærar einingar, sameina deildir og svið osfrv. Hvað hefur ekki gerst í flugsamgöngum hér fyrr á árum, flugvellir á Húsavík, Hólmavík og við Stykkishólm hafa verið aflagðir svo dæmi séu tekin og flugfélögum hefur fækkað. Ég tel að sameining þessara fyrirtækja muni ekki skila miklum rekstrarsparnaði nema að skrefið sé stigið til fulls og óarðbærar rekstrareiningar lagðar af og flugvöllum fækkað. Þar munu þeir sem stýra þessum málum standa andspænis erfiðum ákvarðanatökum þar sem pólitíkin mun skerast í leikinn og sérhagsmunir teknir fram yfir heildarhagsmuni.

Sem skattborgari hlýt ég að gera þá kröfu til ráðamanna þessa lands að við skoðun á sameiningu þessara fyrirtækja séu rekstrarlegar forsendur lagðar til grundvallar með lífvænleika þess fyrirtækis sem til yrði að leiðarljósi. Með þessu á ég m.a. við að rekstur á tveimur flugvöllum á suðvesturhorni landsins er ekki arðbær og lokun Reykjavíkurflugvallar hlýtur að verða niðurstaða samhliða öðrum hagræðingum. Á sama tíma og sársaukafullar aðgerðir eru boðaðar í heilbrigðiskerfi landsmanna þá hljóta ráðamenn að koma auga á augljós samlegðaráhrif í rekstri flugsamgangna.

Höfundur er framkvæmdastjóri.