Sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum
Af og til hafa komið fram hugmyndir og tillögur frá ýmsum aðilum um frekari sameiningu sveitarfélaga á Suðunesjum. Sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna í Reykjanesbæ árið 1994 var stórt skref. Síðan þá hefur margt gerst.
Aðstæður á Suðurnesjum hafa breyst og má segja að sveitarfélögin fimm þ.e. Reykjanesbær, Garður, Sandgerði, Grindavík og Vogar, hafi fengið ólík hlutverk. Varnarliðið var ákveðið sameiningartákn svæðisins en í dag er þetta með öðrum hætti. Að Ásbrú í Reykjanesbæ er markvisst unnið að uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja, líftækni, gagnavera og flugtengdri starfsemi ásamt háskólamenntun í Keili. Í Sandgerði og Grindavík hefur verið unnið að uppbyggingu góðrar hafnaraðstöðu fyrir útgerðina. Í Garði og Vogum er líka öflug útgerð og fiskvinnsla þótt löndun stærri báta fari fram annars staðar. Í Helguvík er stóriðnaður á hraðri uppleið, Flugstöð Leifs Eiríkssonar er í Sandgerði, fiskeldi í Grindavík, Vogum og á iðnaðarsvæðinu á Reykjanesi og Bláa Lónið í Grindavík. Ferðaþjónustan og Geopark jarðvangur nær svo yfir allt svæðið sem og margvísleg verslun og þjónusta.
Í daga eiga sveitarfélögin í ýmis konar samstarfi og rekstri. Það má með góðum rökum fullyrða að auka mætti hagræðingu og skilvirkni í öllu kerfinu ef á bakvið samfélagið og atvinnulífið stæði eitt 22 þúsund manna sveitarfélag sem biði uppá öfluga og faglega stjórnsýslu og þjónustu á öllum sviðum, atvinnulífi og íbúum til heilla.
Ég geri mér grein fyrir að til skamms tíma spila tilfinningar, hrepparígur og núverandi ástand í fjármálum sumra sveitarfélaganna stóra rullu en við verðum að horfa mun lengra fram í tímann. Ég tel þetta því eitt mikilvægasta hagsmunamál svæðisins til framtíðar litið. Fyrsta skrefið væri að láta hlutlausa aðila gera nýja úttekt á kostum og göllum sameiningar sem síðan þyrfti að ræða og kynna vel án nokkurra skuldbindinga. Slík úttekt tekur tíma og kostar peninga en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga myndi örugglega styrkja slíka vinnu myndarlega eins og lög og reglur gera ráð fyrir.
Okkur ætti því ekkert að vera að vanbúnaði að hefja slíka vinnu fljótlega.
Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson