„Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“
– Haraldur Helgason skrifar
Þetta eru ein af fleygustu orðum SJÁLFSTÆÐISBARÁTTU ÍSLENDINGA, þessi orð standa enn fyrir sínu og ættu SJÁLFSTÆÐISMENN Í NJARÐVÍK sérstaklega að hafa þau að leiðarljósi í sveitastjórnarkosningunum á laugardag. Ég beini orðum mínum til Gunnars Þórarinssonar og þeirra sem eru að hugsa um að kjósa lista hans.
Gunnar Þórarinsson kom inn í bæjarstjórn í upphafi síðasta kjörtímabils eftir að hafa tekið þátt í prófkjöri og unnið 2. sætið. Fyrsta árið gegndi hann stöðu forseta bæjarstjórnar og síðustu 3 ár sæti formanns bæjarráðs. Hann var valinn til að gegna þessum embættum af núverandi félögum sínum í bæjarstjórn. Þrátt fyrir það hefur Gunnar ítrekað lýst því yfir í kosningabaráttunni að hann geti ekki starfað með fyrrum félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum eftir næstu kosningar. Ég efast ekki um hæfni Gunnars til að gegna þeim störfum sem hann hefur sinnt frekar en ég efast ekki um hæfni Árna Sigfússonar til að gegna embætti bæjarstjóra. Ég hef starfað með þessum mönnum og þekki þá vel, þeir eru ágætir fagmenn hvor á sínu sviði.
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í vor gaf Gunnar Þórarinsson kost á sér í 1.-2. sæti. Það er lofsvert að menn setji markið hátt og sæki fram, enginn á frátekið sæti í prófkjöri. Gunnar hafnaði í 5. sæti með innan við 50% atkvæða sem þýðir samkvæmt reglum prófkjörsins að heimilt var að færa hann til á listanum. Hann átti ekki kröfu á það sæti. Eftir vangaveltur um uppröðun listans var Gunnari boðið 6. sætið en flokkurinn er í dag með 7 bæjarfulltrúa. Taldi Gunnar að sér vegið og ákvað að taka ekki sæti á listanum.
Í sögu Reykjanesbæjar eða sveitarfélaganna þriggja sem mynduðu hann hefur enginn forystumaður stjórnmálaflokks hin síðari ár náð viðlíka árangri í kosningum og Árni Sigfússon hefur gert síðustu þrennar kosningar. Nú hafa forystumenn flestra framboða í Reykjanesbæ gengið í lið með Gunnari Þórarinssyni í að telja bæjarbúum trú um að ráða verði nýjan bæjarstjóra vegna þess að Árni Sigfússon hefði gegnt embættinu í 12 ár. Ef ég man rétt hefur Gunnar starfað við bókhaldsþjónustu í 34 ár og annar forystumaður framboðs í Reykjanesbæ, Guðbrandur Einarsson, verið formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja í 16 ár. Þykir mönnum það of langt? Varla glata menn hæfni eða starfsgetu við að öðlast reynslu í viðfangsefnum sínum. Ekki efast ég um hæfni þeirra til að gegna störfum sínum.
Sem forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs hefur Gunnar Þórarinsson verið í forystu bæjarstjórnar síðastliðin fjögur ár. Af hverju heyrðist ekkert frá honum allt þetta kjörtímabil um þau ráð sem hann hefur núna til að draga úr kostnaði og breyta rekstri bæjarins ?
Það er manninum auðveldara að lifa með sigrum sínum en ósigrum. Gunnari Þórarinssyni var boðið 6. sætið á framboðslista flokksins til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll í fyrstu sex sætunum. Fleiri karlar en Gunnar voru þannig færðir til.
Miðað við yfirlýsingar forsvarsmanna flokkanna á Stöð 2 í gær er alveg ljóst að Sjálfstæðismenn þurfa að fylkja liði og styðja lista flokksins sem aldrei fyrr. Smáflokkabandalag fólks með ólíkar lífsskoðanir er ekki það sem Reykjanesbær þarf á að halda á erfiðleikatímum.
Í landsstjórninni er unnið af fullum krafi í góðu samstarfi við forystu flokksins í bæjarstjórn við að styrkja fjölbreytta atvinnu í sveitarfélaginu. Það liggur í hlutarins eðli að með fjölda flokksbrota við stjórnun bæjarins verður sú atvinnuuppbygging sem svo sannarlega er þörf á flókin og jafnvel ógerleg.
Fram til sigurs kæru bæjarbúar og Njarðvíkingar.
Haraldur Helgason
Frambjóðandi D-lista Sjálfstæðisflokksins
og fv. formaður Sjálfstæðisfélagsins Njarðvíkings