Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 19. janúar 2001 kl. 10:30

Sameinaðir stöndum vér - sundraðir föllum vér

Steinþór Jónsson er einn þeirra sem stóð að borgarafundinum um tvöföldun Reykjanesbrautar. Í bréfi sínu gerir hann grein fyrir hver næstu skref áhugahóps um örugga Reykjanesbraut verða.

Kæru Suðurnesjamenn,
Til hamingju með borgarafundinn í Stapa þann 11. janúar s.l. Fyrstu orðin sem komu upp í hugann eftir fundinn er samheldni og þakklæti en samkvæmt okkar upplýsingum var hér um að ræða einn stærsta borgarafund fyrr og síðar og þurftu margir frá að hverfa. Það eitt og sér styður málefnið gríðarlega og sýnir einstakan samhug okkar Suðurnesjamanna þegar á þarf að halda.
Sérstakar þakkir sendum við til allra fundargesta sem svo vel studdu ályktun fundarins. Vilji ráðamanna til framgangs ályktunar fundarins er mikill, það er ljóst af góðum viðbrögðum eftir fundinn. Okkar bestu þakkir sendum við Sigmundi Erni fyrir frábæra fundarstjórn og Páli Ketilssyni og starfsfólki hans á Víkurfréttum fyrir fagmannlega aðstoð. Skipulag fundarins og annar undirbúningur gekk vonum framar og færi ég kraftmiklum undirbúningshóp mínar bestu hamingjuóskir og þakkir fyrir frábæran árangur.
Kæru Suðurnesjamenn, nú þarf að halda vöku sinni því stórt skref hefur vissulega náðst með samstöðu fundarins en málinu þarf að fylgja vel eftir. Á næstu vikum mun áhugahópurinn halda fundi með samgöngumálaráðherra og þingmönnum en samhliða því vinna að bættri umferðarmenningu á Reykjanesbraut. Til að minna á ábyrgð ökumanna mun hópurinn m.a. í samstarfi við lögregluyfirvöld dreifa, í næstu viku, eitt þúsund „bílabænum“ sem minna á ábyrgð okkar ökumanna.
Ánægjulegt var að sjá alla sýslumenn svæðisins á fundinum en þeirra bíður stórt verkefni í eftirlitsskyldu sinni á Reykjanesbraut meðan núverandi ástand varir og mun áhugahópurinn fylgjast vel með því starfi og greina frá árangri þegar frá líður. Nú er mikilvægt að allir leggist á eitt um að stuðla að bættri umferð á Reykjanesbraut.

Lifið heil.

F.h. áhugamanna um örugga Reykjanesbraut,
Steinþór Jónsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024