Saga úr stjórnmálum
Í andrúmslofti líðandi vetrar hefur tortryggni átt greiðan aðgang að almenningi og margar sögur hafa komist á kreik um þátttakendur í opinberu lífi. Sumar voru settar af stað með kerfisbundnum hætti til þess að gera nafngreint fólk tortryggilegt.
Ein saga af slíkum rógburði. Um helgina hringdi í mig vandaður maður og sagði mér að kosningasmalar Sjálfstæðisflokksins hefðu sótt hann heim. Reynt að fá hann til að kjósa í prófkjöri hjá Flokknum en hann sagði nei, hann styddi Björgvin og Samfylkinguna og kysi ekki hjá öðrum.
Þetta þótti smölunum afleitt að heyra. Björgvin væri ekki hægt að kjósa þar sem hann hefði fengið afskrifaðar 100 milljónir í bankakerfinu! Eitt hundrað milljónir, takk fyrir.
Saga af sama meiði: Fyrir skömmu sat hjá Agli í Silfrinu Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, þar sem var til umfjöllunar óeðlileg fyrirgreiðsla til stjórnmálamanna. Þar hafði hann í frammi aðdróttanir að mér, kvað bankamálaráðherrann fyrrverandi þurfa að gera grein fyrir viðskiptum sínum við Landsbankann „sem er náttúrulega altalað svona meðal almúgans og á bloggheimunum.” Ekki gerði þáttastjórnandinn athugasemd við að slíkur málflutningur væri hafður uppi, né heldur hefur hann boðið mér að bera hönd fyrir höfuð mér eftir þennan áburð og dylgjur í þætti hans.
Söguberum til hugfróunar vil ég segja þetta: Ég hef ekki fengið eina einustu krónu afskrifaða eða niðurfellda í nokkru fjármálafyrirtæki og aldrei óskað eftir því. Ég hef alla ævi skipti við einn og sama bankann, Landsbanka Íslands, og engan annan. Ég óskaði formlega eftir því á mánudaginn við Landsbankann að hann staðfesti að ég hafi aldrei fengið neinar afskriftir hjá bankanum, og aldrei farið fram á það. Bankinn staðfestir það við hvern þann sem eftir því leitar. Við þetta má bæta að ég og sambýliskona mín eigum tvær húseignir sem eru heimili fjölskyldunnar; á Selfossi og í Skarði, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Skuldum við tvö húsnæðislán vegna þeirra. Hjá Landsbankanum annars vegar og Íbúðalánasjóði hins vegar.
Og svona rétt til að það komi skýrt fram vegna sögusagnanna: Ég hef aldrei átt einkahlutafélag eða fjárfest í neinu í ágóðaskyni. Því vísa ég rógnum til föðurhúsa. Vonandi ber okkur gæfa til að færa stjórnmálaumræðuna upp á hærra plan þannig að okkur auðnist að ræða um viðfangsefnin sem fyrir liggja í stað eltingaleiks við ærumeiðingar.
Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður.