SÁÁ álfurinn í sölu um helgina
Tuttugasta og önnur Álfasala SÁÁ fer fram 19.-22. maí næstkomandi. Eins og undanfarin ár er álfurinn tileinkaður unga fólkinu og mun allt söfnunarfé renna til rekstrar unglingadeildar okkar á sjúkrahúsinu Vogi.
Álfasalan skiptir SÁÁ gríðarlega miklu máli og er mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna. Salan er sérlega mikilvæg núna þegar fjárveitingar og styrkir einkaaðila hafa verulega dregist saman. Það hefur þegar leitt til mikils samdráttar í starfi samtakanna. Með góðum árangri í sölunni í ár getum við hugsanlega haldið í horfinu og haldið áfram að aðstoða fólk við að ná áttum í sínu lífi og koma undir sig fótunum á ný í allsgáðu lífi. Það er fátt eins ánægjulegt og að sjá þetta unga fólk blómstra á ný og öðlast ný tækifæri í lífinu.
Álfurinn verður til sölu víðsvegar á landinu og við allar helstu stórverslanir á höfuðborgarsvæðinu, við alla útsölustaði ÁTVR og nýlundan í ár er að N1 hefur gengið til liðs við SÁÁ með myndarlegum hætti og ætlar að bjóða upp á Álfinn á sínum bensínstöðvum víðsvegar um landið. Auk þess verður hægt að kaupa Álfinn með rafrænum hætti inn á heimasíðu SÁÁ, www.saa.is. Það er hugsað fyrst og fremst fyrir þá Íslendinga sem eru erlendis og vilja kaupa Álfinn. Við þetta má bæta að Álfurinn er komin með sína eigin Facebook síðu og hvetjum við alla velunnara til að fara þar inn og smella á LIKE og DEILA til að Álfurinn verði sýnilegur á Facebook.
Ekki þarf að hafa mörg orð um þau áhrif sem efnahagshrunið hér hefur haft á stöðu margra áfengis- og vímuefnaneytenda. Margir sem áður gátu höndlað líf sitt geta það ekki lengur og margir sem áður voru í jaðri áhættuhópa eru nú komnir í þá miðja.
Almenn vímuefnaneysla á Íslandi fer stöðugt vaxandi og ljóst er að unglingar og ungmenni sækja í vaxandi mæli í ólögleg vímuefni. Þessari auknu neyslu fylgja margháttuð vandamál sem efnahagástandið magnar upp. Vaxandi ofbeldi og líkamsmeiðingar eru aðeins einn hluti þeirrar birtingarmyndar Vitaskuld á neysla áfengis og annarra vímuefna hvað stærstan þátt í þessu ástandi.
Unglingadeildin á Vogi var tekin í notkun í byrjun árs 2000 og hefur skilað mörg hundruð ungmennum aftur út í samfélagið – reiðubúnum að takast á við daglegt líf. Með tilkomu deildarinnar var þjónusta við vímuefnaneytendur á aldrinum 14-19 ára stóraukin og bætt.
Aukin áhersla hefur verið lögð á að fá foreldra og forráðamenn unglinganna til að taka þátt í meðferðinni. Vikulegir fræðslufundir fyrir foreldra og/eða forráðamenn eru haldnir á Vogi þar sem gefst tækifæri til að eiga samtöl við lækna, unglingageðlækni, sálfræðinga og áfengisráðgjafa sem þar starfa. Foreldrum er jafnframt boðið að taka þátt í fjölskyldunámskeiði fyrir aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúkra