Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 13. maí 2002 kl. 20:33

S-listinn vinnur með fólkinu

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta var ég nokkuð stórorð um fjámálasukk og má segja að ég hafi lýst stríði á hendur yfirborðskenndum aðferðum Sjálfstæðismanna til að slá ryki í augu bæjarbúa. Jafnvægi á milli málaflokka og hverfa í bænum

Þegar farið er út í skilgreiningar á því hvað betur mætti fara í bænum okkar og í þjóðfélaginu í heild getur verið erfitt að taka einn þátt út úr.
Ég tel að við flest viljum sjá jafnvægi ríkja á milli málaflokka og að fólki sé gert jafnt undir höfði. Málflutningur á borð við það að Samfylkingin sjái einungis þann möguleika að allir þættir eigna og reksturs séu í höndum bæjarfélagsins er nokkuð einfölduð hugmyndafræði. Þannig hafa andstæðingar okkar gjarnan túlkað okkar stefnu. Samfylkingin telur það mikilvægt að þær reglur sem bæjarfélagið setur sér, s.s. útboðsreglur og aðrar vinnureglur séu virtar. Það hefur nokkuð skort á það að mínu mati. Bæjarfélag er þjónustueining þar sem hlutverk þjónustuaðila er tvíþætt: að veita jafnt góða þjónustu, sem og huga að fjárhagslegri hagkvæmni. Ef það er bæjarfélaginu í hag að einstaklingar eigi eignaraðild eða sjái um rekstrarhlutverk, þá er það af hinu góða. Það er hins vegar ekki gæfuspor að neyðast út í einkavæðingu á ákveðnum sviðum einungis til að ,,fiffa“ til í bókhaldinu.

Íbúalýðræði og samstaða íbúanna

Samfylkingin leggur ríka áherslu á íbúalýðræði í stefnuskrá sinni og telur að hugmyndir um aukna þátttöku og ábyrgð bæjarbúa hvetji til góðra verka auk þess sem það efli samstöðu og styrki mannleg samskipti í bænum. Það er eftirtektarvert hve samstaða hefur orðið mikil í mörgum hverfum bæjarins s.s. í Innri-Njarðvíkurhverfi. En ef mér skjátlast ekki sóttu þeir það stíft að halda sérstaka hátíð „Sögudaga” hér fyrir fáum árum en bæjaryfirvöld sinntu ekki þessum áhuga bæjarbúa. Nú virðist það líta út fyrir að Sjálfstæðismenn hafi fundið þetta hverfi og ætla þeir sér nú stóra hluti, ef þeir fái til þess umboð. Mér er spurn í hvaða bæ bjuggu þeir á síðustu 8 árum á meðan þeir stjórnuðu sveitarfélaginu. Samfylkingin hefur ítrekað lagt til að skipulagt yrði heildstætt hverfi í Innri-Njarðvík, þannig að þar geti risið hverfi með skóla og tilheyrandi þjónustu. Þetta hefur verið kolfellt af meirihluta bæjarstjórnar.
Ágætu bæjarbúar! Ég hvet ykkur til að hugleiða það hvernig þið viljið sjá bænum ykkar stjórnað. Ef þið setjið X við S þýðir það ekki að þið hvert og eitt ykkar takið völdin. Þetta verður spurning um það hvort þið verðið höfð með í ráðum, því að þið hafið svo sannarlega ýmislegt til málanna að leggja. Þið veljið ykkur fulltrúa til að stjórna og getið þar af leiðandi gert kröfur til þeirra en það verður ávallt hlutverk bæjarfulltrúanna að vinna í ykkar þágu.

Sveindís Valdimarsdóttir, skipar 4. sæti á S-listanum í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024