Rusl = Verðmæti
– Elfa Hrund Guttormsdóttir skrifar
Ég á þrjú börn sem hafa verið í leikskóla hér í Reykjanesbæ. Þar lærðu þau að flokka rusl og urðu miklir sérfræðingar í því þegar þau hófu skólagöngu. Endurvinnslan heldur áfram í grunnskólum Reykjanesbæjar, allt rusl er flokkað og skólarnir fá viðurkenningu fyrir að vera grænfána skólar.
Gott og vel. En þegar heim er komið er allt rusl sett í sömu fötuna. Finnst ykkur þetta í lagi ? Bæjarbúar geta leigt sér græna tunnu á kr 1.000 kr á mánuði – s.s ef fólk vill vera umhverfisvænt þá þarf það að greiða sérstakt gjald fyrir. Hvaða skilaboð er verið að senda bæjarbúum ? Þau svör sem ég hef fengið þegar ég hef verið að spyrja út í þetta fyrirkomulag bæjarins í sorpmálum , er að við erum með svo öfluga brennslu í Kölku.
Þegar við fjölskyldan förum í okkar árlegu skíðaferð norður á Akureyri þá þurfum við að haga okkur eins og allir íbúar Akureyrar og flokka allt heimilissorp í fjórar tunnur – lífrænt – plast – pappír – almennt sorp. Þetta venst ótrúlega vel og manni líður vel að taka þátt í þessari flokkun. En þegar heim er komið þá upplifi ég misræmi eins og börnin okkar í Reykjanesbæ þegar þau koma heim úr leikskóla og grunnskóla, flokka þar en ekki þegar heim er komið.
Gerum bæinn vistvænni
Við þurfum að vakna til lífsins og hugsa til framtíðar. Við eigum aðeins eina jörð og við þurfum að ganga vel um hana. Sýnum afkomendum okkar einnig virðingu með því að hugsa betur um okkar nánasta umhverfi.
Skoðum Fitjar – vinabæ Njarðvíkur í Noregi. Bæjarbúar flokka rusl og skapa verðmæti úr ruslinu. Íbúarnir þurfa ekki að greiða útsvar til bæjarins vegna gróðans sem hlýst af endurvinnslunni.
Við þurfum að breyta áherslum í umhverfismálum í bænum okkar og gera hann vistvænni. Setja okkur metnaðarfulla umhverfisstefnu og auðvelda íbúum sorpflokkun og endurvinnslu. Taka umhverfisvæna skrefið inn í 21. öldina og vera börnum okkar fyrirmynd í verki.
Elfa Hrund Guttormsdóttir
Frambjóðandi Samfylkingarinnar og óháðra