Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rótarýdagurinn 2017
Föstudagur 5. maí 2017 kl. 06:00

Rótarýdagurinn 2017

- Aðsend grein frá forseta Rótarýklúbbs Keflavíkur

Rótarýklúbbur Keflavíkur varð 72 ára í ár og hefur allan þennan tíma skipað sitt hlutverk í félagaflóru Suðurnesja. Stofnfélagar á sínum tíma voru ýmsir mektarmenn sem vildu taka þátt í að byggja upp gott samfélag hér á svæðinu og tóku þeir þátt í alls kyns samfélagsverkefnum sem öll miðuðu að því að gera Keflavík að betri bæ til að búa í.  Laugardagurinn 6.maí er svokallaður Rótarýdagur og með grein þessari langar okkur klúbbfélaga að vekja athygli á klúbbnum og þeim markmiðum sem félagarnir fylgja enn þó svo að ýmislegt annað hafi breyst hér í bæ, hér í Reykjanesbæ. 

Rótarý er alheimshreyfing þar sem félagar eru valdir án tillits til trúmála, stjórnmála eða þjóðernis. Markmið klúbbsins eru að auka kynni á meðal fólks, efla siðgæði í leik og starfi, auka viðurkenningu á gildi nytsamra starfa, efla virðingu félaga fyrir eigin starfi, setja þjónustu við aðra ofar eigin hag og efla góðvild og frið milli þjóða. Einkunnarorð Rótarý, svokallað fjórpróf hljóðar svo: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? Við getum við öll verið sammála um að þar sem þessi orð eru iðkuð ætti að vera gott samfélag. Það má nefna sérstaklega tvö samfélagsverkefni sem Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur sinnt hér í heimabyggð á liðnum árum og eru það Krabbameinsfélag Suðurnesja og Skógræktarfélag Suðurnesja. Klúbburinn hefur einnig stutt frumkvöðla með ákveðnum styrkveitingum og oft hlaupið undir bagga í einstökum stuðningsverkefnum í bæjarfélaginu. Klúbburinn hefur einnig tekið þátt í fjölda hjálparverkefna á heimsvísu með öðrum Rótarýklúbbum og er skemmst að minnast Polio plus herferðarinnar sem sett var af stað í þriðja heiminum til að útrýma lömunarveiki.
En Rótarý er líka gert fyrir einstaklinginn og ég get hæglega nefnt sjálfa mig sem dæmi. Ég var í þessum fyrsta hópi kvenna sem var hér um árið boðið á kynningarfund í karlaklúbbinn Rótarý af þáverandi forseta, kvenlækninum Konráð Lúðvíkssyni. Hvort hann þótti hafa auðveldari aðgang að kvenfólki bæjarins eða hver svo sem ástæðan var, þá fóru að tínast inn konur í klúbbinn á þessum tíma! Mín staða þá, var að ég var virkur meðlimur í nokkrum hópum sem allt voru flottir hópar en kannski svolítið einslitir, svona faghópar, kynskiptar klíkur. Þegar þarna var komið við sögu var ég nýkomin í nýja vinnu og vantaði nýtt tengslanet og svo var ég líka svolítið forvitin, hvernig skyldu svona karlaklúbbar virka? Rótarý sem starfsgreinaklúbbur vakti hjá mér meiri áhuga en ýmsir aðrir hópar því ég bjóst við að þarna gæti verið  fjölbreyttur hópur með mismunandi bakgrunn og fjölbreytt áhugamál.  Og það var einmitt lóðið. Í Rótarý fáum við vikulega fjölbreytta fyrirlestra um alls kyns efni og þar er alltaf verið að skoða þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni og skipta máli og það á vandaðan og faglegan hátt. Þarna fá félagar nasasjón af ýmsu sem þeir annars myndu aldrei láta sér detta í hug að kynna sér að fyrra bragði þannig að sjóndeildarhringurinn kemst ekki hjá því að víkka, þeim sjálfum og örugglega samfélaginu líka til góðs. Fjölbreytni hópsins er ekki einungis falin í mismunandi starfsgreinum heldur einnig breiðu aldursbili og báðum kynjum sem gefur þessu enn meiri breidd. Og ég fullyrði það hér og nú að jafnrétti kynjanna er vel gætt í Rotary og á mjög svo afslappaðan og eðlilegan máta, þ.e. a.s. þannig að maður tekur ekkert eftir því og er ekkert að spá í það. Það bara er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rótarý er sem sagt ekki bara skemmtilegur félagsskapur heldur hefur hann líka góð gildi sem eru þess verð að vinna að. Þar er borin virðing fyrir samfélagslegri ábyrgð og þar er unnið að alþjóðlegu hjálparstarfi. Rótarý er góður hópur karla og kvenna sem býður upp á skemmtilegan og þroskaðan félagsskap og gefandi tengslanet bæði innanlands sem utan.  Ef áhugi einhverra vaknar á að kynna sér Rótarýklúbb Keflavíkur betur við lestur þessarar greinar, þá má hafa samband við undirritaða.


Valgerður Guðmundsdóttir
forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur