Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Rósir við íslenskar aðstæður
  • Rósir við íslenskar aðstæður
Laugardagur 14. febrúar 2015 kl. 09:00

Rósir við íslenskar aðstæður

Konráð Lúðvíksson skrifar.

„Senn fer vorið á vængjum yfir flóann“, söng hinn síungi Ragnar Bjarnason í dægurlagamessu ætluð fermingarbörnum hér á Akranesi er ritari mætti til leiks. Hann gat þess sjálfur  að hann myndi ekki alltaf textana á lögunum sem hann syngi, en það kæmi ekki að sök, því þá skáldaði hann bara það sem upp á vantaði og enginn skildi hvort sem er textana sem hann syngi. 

Í þessum upphafsorðum er fólgin hin einlæga eftirvænting eftir því lífi sem sofnaði á haustmánuðum og við bíðum eftir að kvikni aftur. Í eftirvæntingunni felst minningin um öll hin vorin sem við höfum fengið að lifa. Sum köld, önnur hlý. Sum slæm, önnur góð. Endurtekningin skilur eftir sig möguleika á samanburði. Hver áramót eru upphaf nýrrar hringrásar hér á norðurslóðum, þar sem ferlið er hið sama frá ári til árs. Við sem hér búum erum í raun forréttindarhópur því eftirvæntingin skapar ákveðna spennu í líf okkar, þar sem aldrei er á vísan að róa. Hver dagur er óræður. Blæbrigðin eru almennt hvetjandi og vekja menn til dáða. Þeir sem yndi hafa af veiðiskap og kvöddu síðasta sumar fremur sneyptir eftir lélega afkomu eru nú fullir eftirvæntingar eftir nýjum ævintýrum. Tekin hafa verið fram áhöld til fluguhnýtinga og myndræn draumsýnin líður um hugann um leið og ný fluga er hnýtt. „Vaknar allt af vetrarblundi“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir garðanördar sem gjarnan skríða í moldinni þegar aðrir standa uppréttir hafa ekki beinlínis riðið feitum hesti frá blómgun síðustu tveggja ára hér á suð-vestur horninu. Blómstrandi runnar, þar með talið rósir, fóru sérlega illa út úr sumrinu 2013, þegar rigningarkalsinn nánast gerði útaf við þá. Eftirhreyturnar sem tóku að laufgast árið eftir áttu erfitt uppdráttar, enda ástandið slæmt þegar lagst var til hvílu þá um haustið. Blómgunin tók langan tíma og þá loks hún varð, var nánast komið haust. Á hinn bóginn féllu síðustu blómknúpparnir ekki fyrr en undir jól var, enda nóvember með eindæmum hlýr.  Það er því spennandi að vita hvað gerist nú í sumar þar sem ástand runna var almennt gott er lagst var til hvílu nú á haustmánuðum

Rósin, sú eðla jurt, hefur verið samferða mannkyninu a.m.k. 4700 ár. Allar viltar rósir eiga sér sama forforeldri væntnalega einhvers staðar í Asíu. Hvati til framræktunar var upphaflega vegna ilmsins, framleiðslu rósaolía og snyrtivara. Síðar sáu menn fegurðina í einstaklingum og tóku þá að rækta fram afburða einstaklinga hvað form og litafegurð varðaði. Rósin prýðir gjarnan dýrustu perlur hinnar trúarlegu málaralistar miðalda, þótt ekki sé vitað til þess að hún hafi vaxið í alingarðinum Eden. Saga rósaræktar á Norðulöndum spannar rúmlega 100 ár, en aðeins tugi ára hér á Íslandi, þar sem veðurskilyrði hafa aðeins á seinni árum talin henta til slíkra ævintýra. Með framræktun harðgerðari kvæma sem flutt hafa verið til landsins hefur árangur rósaræktar orðið sýnilegri. Miklum efnivið hefur verið safnað í gagnagrunn, sem tekur mið af staðháttum hvers landsvæðis. Fjölbreytileiki þeirra tegunda sem vert er að reyna eykst stöðugt, Þó má ætíð búast við aföllum þegar veðurskilyrði eru slík sem við höfum upplifað á síðustu tveimur árum. Að undaförnu hefur m.a. náðst góður árangur af ræktun kanadískra rósa hér á landi.

Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands hefur nú vaknað upp af vetrardvala og ætlar að hefja fræðsludagskrá sína á umfjöllun um hvaða rósir þrífast best við íslensk veðurskilyrði.

Fyrsti fundur félagsins verður haldinn þann 18. febrúar kl. 20 í húsi Rauða Kross Íslands, Smiðjuvöllum 8 Reykjanesbæ (ath. breyttan fundarstað) Fyrirlesari er Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands. Allir eru velkomnir og boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgangseyrir er 500 kr.

Konráð Lúðvíksson, formaður.