Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Miðvikudagur 12. maí 2004 kl. 16:53

Rólegt yfir unglingunum í Reykjanesbæ eftir samræmduprófin?

Eins og flestir kannast við þá lauk samræmdum prófum í grunnskólum landsins þriðjudaginn 11. maí s.l. Það er skemmst frá því að segja að engin drykkja var á meðal unglinga í Reykjanesbæ þetta kvöld eins og tíðkaðist fyrir nokkrum árum. Útideild Reykjanesbæjar var með viðbúnað ásamt lögreglu og óhætt er að segja að hegðun unglinganna hafi verið til mikilla fyrirmynda. Mikið átak hefur verið unnið í því að breyta þeirri þróun sem áður tíðkaðist.

 Margir hafa sagt að þeir unglingar sem ætli sér að neyta áfengis til að ,,fagna’’ lokum á samræmdum prófum, geri það einfaldlega þá næstu helgar. Þessi orð geta vel verið rétt. Okkur í Útideildinni hafa borist fregnir af því að ungmenni ætli sér að skemmta sér á Rokktónleikum sem verða föstudagskvöldið 14.maí. Einnig hafa okkur borist fregnir af því að yfir standi skipulagning á ,,hátíðarhöldum’’ skammt fyrir utan Reykjanesbæ.  Því biðlar undirritaður til foreldra og þeirra sem starfa á vettvangi forvarna að taka höndum saman um að reyna allt hvað við getum til að sporna við drykkju ungmenna í kjölfar loka á samræmdum prófum. Einnig hafa rannsóknir sýnt að sumarið er sá tími sem unglingar eru líklegastir til þess að byrja að neyta áfengis eða annarra vímuefna e.t.v. vegna aukinna fjárráða. Höfum því hugfast að það er ólöglegt að veita unglingum áfengi. Lögreglan mun fylgjast með áfengis og tóbaksverslun ríkisins, þar sem ábendingar hafa borist um að fullorðnir hafa verið að gera þann Bjarnargreiða að kaupa áfengi fyrir ólögráða unglinga.

F.h. Útideildar Reykjanesbæjar

Hafþór Barði Birgisson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024