Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rödd skynseminnar er of lágvær
Mánudagur 8. nóvember 2010 kl. 11:12

Rödd skynseminnar er of lágvær

Framsóknarflokkurinn er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, stofnaður 16. desember 1916. Hann er einnig ein stærsta fjöldahreyfing landsins með um þrettán þúsund félögum. Eins og nafnið bendir til þá er hann framfarasinnaður flokkur og leiddi margar ríkisstjórnir á þeim tíma sem landið breyttist úr þróunarríki í eitt þróaðasta velferðarsamfélag í heimi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Fortíðardraugar og framtíðin
Miklar hreinsanir hafa átt sér stað undanfarin misseri innan flokksins þar sem ímynd hans beið stórkostlega hnekki í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar. Þingmannaliðið var endurnýjað, mikil endurnýjun átti sér einnig stað í sveitastjórnum vítt og breitt um landið og flokkurinn var fyrstur til að setja sér siðareglur. Núverandi stjórn flokksins hefur lagt mikið á sig til að styrkja tengslin við grasrótina og hverfa aftur til hinna gömlu og góðu gilda flokksins.

Förum beint áfram
Allt frá upphafi hefur Framsóknarflokkurinn verið frjálslyndur umbótaflokkur svo sem uppruni hans og stefnuyfirlýsingar í gegnum tíðina bera með sér. Þessu viðhorfi var lýst þannig af Hermanni Jónassyni formanni flokksins 1944-62 að stefna flokksins væri hvorki til hægri né vinstri heldur beint áfram. Vegna frjálslyndis síns er hann umburðarlyndur gagnvart skoðunum annarra. Hann vill að allir þeir sem hafa eitthvað fram að færa í sambandi við lausn þjóðfélagsmála fái tækifæri til að tjá sig, túlka skoðun sína og reyna að vinna henni fylgi áður en ákvarðanir eru teknar.

Mál sem hafa sannað gildi sitt
En víkur nú sögunni til Alþingis Íslendinga í dag. Hvernig getum við leyst málin ef hver höndin er uppi á móti annarri og flokkslínur ráða ákvarðanatökum, frekar en skynsemi? Vinstristjórn hefur nú verið við völd í um tvö ár. Stjórn sem lofaði að verja heimilin í landinu. Það hefur ekki tekist. Þingmenn Framsóknar hafa á þessum tíma lagt fram raunhæfar lausnir. Þau stefnumál sem framsóknarmenn hafa barist fyrir, hafa sannað gildi sitt undanfarin tvö ár. Ég get fullyrt að flokkurinn og störf þingmanna okkar hafa hvorki notið þeirrar athygli sem þau eiga skilið né sannmælis. Skynsemi og rökhyggja hafa mótað stefnu og ákvarðanatökur, ekki einstrengingslegar stefnur til hægri eða vinstri.

Hagsmuni hverra er verið að verja?
Upp á síðkastið hefur umræðan snúist um að stefnuleysi og máttleysi stjórnvalda sé líka stjórnarandstöðunni að kenna. Þetta er alrangt.. Tillögur frá stjórnarandstöðunni hafa verið látnar hverfa. Þegar Framsóknarmenn hafa bent á að staðan sé verri en ríkisstjórnin vill viðurkenna, þá hafa þeir verið sakaðir um að vera neikvæðir. Þvílíkt leikrit. Hagsmunum hverra er verið að þjóna með slíkum leikararskap? Að minnsta kosti ekki okkur, íbúum þessa lands. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð höfðu þingmenn Framsóknar mikla trú á því að allir myndu vinna saman að því að taka á bráðavanda heimila og fyrirtækja. Framsókn treysti öðrum flokkum til að halda um stjórnartaumana í minnihlutastjórn. En þegar erlendir kröfuhafar eru teknir fram yfir almenning bæði varðandi skuldir heimilana og ólögmætar kröfur á ríkið er ekki hægt að láta það viðgangast í nafni samvinnu. Formaður flokksins hefur lýst því formlega yfir að það hafi verið mistök að styðja núverandi stjórn þar sem það traust sem sýnt var við myndun minnihlutastjórnarinnar er ekki endurgoldið með því að hlusta á tillögur til úrbóta.
Svona að lokum þá langar mig til að birta brot úr grein eftir Jónas Jónsson frá Hriflu sem birtist í Skinfaxa árið 1913, 6.tbl. bls. 42. Þessi grein sýnir okkur glögglega að sagan er sjaldnast ný. Hún endurtekur sig og við eigum að læra af henni.
„Við megum ekki gleyma því að í landinu hefur myndast hópur fjárglæframanna, sem aðallega gera sér að atvinnu að stofna til félaga, sprengja þau og hirða molana. Þeir menn eru lausir við flestar siðlegar hömlur. Fjárgræðgin knýr þá áfram; hegningarhúsið er hið eina sem þeir forðast. Þessvegna beita þeir kænsku sinni til að svíkja lögum samkvæmt; þvílíkir ræningjar eru mestu skaðræðismenn samtíðarinnar.“


Silja Dögg Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ.