Róbert Marshall skrifar: Þar sem vinnan er
Langamma mín og langafi, Guðríður Vigfúsdóttir og Guðmundur Guðmundsson, stunduðu kotbúskap á hjáleigunni að Háeyrarvöllum á Eyrarbakka á fyrstu áratugum aldarinnar. Þau voru fátæk og barnmörg. Eignuðust 13 börn en tvíburar í systkynahópnum dóu ungir. Þetta var hart líf; búskapsbarningur og sjóróðrar. Suður í Keflavík var þá að myndast öflugt sjávarþorp með góðri höfn og mikilli vinnu. Hjónakornin tóku sig því upp 1925 eða 1926 og fluttu þangað sem vinnuna og lífsbjörgina var að fá. Þau byggðu sér hús að Hafnargötu 50 í Keflavík, nú eru þar fataverslanirnar Zikzak og Blend í nýjum húsum, og megnið af börnunum fór þangað með þeim, utan þriggja sem voru orðin stálpuð. Þau fóru til Reykjavíkur.
Það er mynd af Guðríði í stofunni heima hjá foreldrum mínum í Vestmannaeyjum. Stolt, glæsileg kona, hvasseyg og fögur. Myndin er tekin af henni á gamals aldri en hún ber með sér fas sjálfsöryggis og festu; það glittir í ungu konuna sem hún var. Aldamótabeib, ef maður má taka þannig til orða um langömmu sína. Ættingjar mínir heimsækja stundum tóftirnar að Háeyrarvöllum á Eyrarbakka. Drekka þar kaffi og vitja upprunans.
Krafturinn og vonin
Enn þann dag í dag fer fólkið, eins og langamma mín og langafi, þangað sem vinnuna og lífsbjörgina er að finna. Hundrað ár hafa engu breytt í þeim efnum. Þar sem krafturinn, aflið og vonin býr, þangað fer fólkið.
Það sem hefur komið mér mest á óvart frá því ég tilkynnti um þátttöku mína í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi er að á mörgum stöðum hefur vonin verið tekin burt. Krafturinn er til staðar en má sín lítils ef vonin er engin. Hvernig gerist þetta?
Það eru ekki bara lamaðar samgöngur og ónýt sjávarútvegsstefna sem hafa drepið niður samfélagsanda bæja á landsbyggðinni. Það eru líka litlir hlutir sem svo auðveldlega má laga. Það er engin viðvarandi löggæsla í bæjum eins og Grindavík og Hveragerði og það stefnir í það sama í Vík í Mýrdal. Það er bara sinnt bráðatilfellum á morgnana í Heilsugæslunni í Grindavík. Á skurðstofunni í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja eru flísarnar að hrynja af veggjunum. Dúkarnir að flagna af gólfunum. Þetta ergir fólk og ýtir undir þá tilfinningu þess að þau séu annars flokks. Að þau skipti ekki máli.
Tengslin við fólkið
Á sama tíma og þetta gerist tala menn um að stofna leyniþjónustu og greiningadeildir í Reykjavík. Þeir ætla að eyða milljörðum í hátæknisjúkrahús í höfuðborginni á meðan það eru ekki til peningar til þess að sinna viðhaldi á sjúkrahúsum landsbyggðarinnar. Fólkið sem er pirrað á þessu segir ekki mikið. Það hefur ekki hátt og foringjar landsins halda þess vegna að allt sé í stakasta lagi. Þeir trúa svo fast á eigið ágæti að þeir afneita vandanum þegar þeim er bent á hann. Þeir standa fyrir framan heimamenn sem segja þeim að hlutirnir séu ekki í lagi og segja: nei, þetta er rangt hjá þér. Þó allir sjái að það sé rétt. Þetta er ríkisstjórn sem hefur misst tengslin við fólkið í landinu. Ríkisstjórn sem vill komast í samfélag stórþjóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórn sem stingur svo undan sjálfri sér, í þeim efnum, með því að hefja hvalveiðar. Hvað er búið að eyða miklum peningum í öryggisráðsumsóknina Geir? Einhver góður fréttamaður ætti að spyrja að þessu. Svarið er frétt. Vegna þess að upphæðinni hefur verið hent út um gluggann.
Fólkið í landinu spyr sig um þessar mundir hvort ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu rétta fólkið í þau störf sem þeim hefur verið falin. Það veltir fyrir sér hvort Geir sé í raun og veru flínkur; eða hvort hann sé bara að þykjast.
Það veltir líka fyrir sér að flytja til Reykjavíkur. Í framtíðinni getum við svo heimsótt Grindavík, Vestmannaeyjar, Vík og Höfn. Drukkið kaffi á tóftunum og vitjað upprunans. Við getum líka sagt: Ekki meir, Geir. Það er kominn tími til að breyta.
Róbert Marshall
bíður sig fram í 1-2 sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar á Suðurkjördæmi.
marshall.is