Róbert Marshall býður sig fram til forystu í Suðurkjördæmi
Róbert Marshall, fyrrverandi fréttamaður og forstöðumaður NFS, hefur tilkynnt um þátttöku sína í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi sem fram fer þann 4. nóvember. Hann segist í samtali við Víkurfréttir telja bakgrunn sinn sem landsbyggðarmann geta nýst Suðurnesjamönnum vel á þingi.
“Ég er Eyjamaður sem hefur búið í Reykjavík í 14 ár en ávallt haldið góðum tengslum við mína heimabyggð enda fjölskylda mín þar. Ég hef því þekkingu og reynslu af málefnum sveitafélaganna á suðurnesjum. Sjálfur unnið í fiski, í netagerð og verið á sjó.”
Hvað finnst þér brýnast að ráðast í hér á Suðurnesjum?
“Skjóta uppbyggingu í atvinnumálum eftir nýlegt áfall. Ég tel einsýnt að stjórnvöld hafi brugðist þegar brotthvarf hersins er annars vegar. Það virðast allir á landinu hafa vitað það í 15 ár að herinn væri á förum og að nauðsynlegt væri að undirbúa viðbrögð vegna þess, nema stjórnvöld. Þau föttuðu þetta seint og illa, eiginlega bara nú í sumar. Þetta sýnir ábyrgðarleysi.”
En hvað er rétt að gera í stöðunni?
“Nýta möguleika bæjarfélagana enn frekar hvað varðar uppbyggingu á Leifstöð, reyna að draga sem mest af ferðamönnum til þeirra bæjarfélaga sem hér eru. Það er gífurleg aukning á komu erlendra ferðamanna um völlinn og það eru sóknarfæri víðar en í Bláa Lóninu þó uppbygging þar sé aðdáunarverð. Ég tel nauðsynlegt að byggja upp léttan iðnað í Helguvík en vara við álveri þar.”
Hver vegna?
“Ég tel það of nálægt bænum. Það er mengandi iðnaður en öfugt við loðnuverksmiðjuna í Helguvík sem flestir íbúar í norðurbæ Keflavíkur hafa fundið lyktina af í vissum vindáttum, þá yrðu íbúar ekki jafnmikið varir við mengun frá Álveri. Samt yrði hún til staðar. Hún er meira heilsuspillandi en peningalyktin og menn væru að búa til vandamál. Hafnfirðingar þekkja þessa sögu og ég vara við þeirri slóð.”
Hver eru meginstefnumál þín?
“Umhverfisvernd, stórbættar samgöngur á Suðurlandi, uppbyggingu atvinnulífs, jafnréttismál og vernd borgaralegra réttinda.”
Nú ertu að bjóða þig fram gegn sitjandi þingmönnum, hvaða möguleika áttu gegn þeim?
“Ég lít ekki svo á að ég sé að bjóða mig fram gegn þeim. Ég er bara að bjóða mig fram. Ef það er gegn einhverjum þá er það gegn Árnunum Mathiesen og Johnsen. Margrét Frímannsdóttir hverfur af vettvangi eftir áralangt farsælt starf sem öflugur leiðtogi. Það skarð er vandfyllt en ég býð mig fram í 1.til 2. sæti. Það er svo fólkið sem velur.”
Þetta er nýr vettvangur fyrir þig. Kanntu á hann?
“Ég starfaði í pólitík áður en ég gerðist fréttamaður. Var formaður ungra Alþýðubandalagsmanna og barðist fyrir sameiningu vinstri manna sem slíkur. Tók því virkan þátt í að búa til Samfylkinguna. Þar að auki hef ég mikið fjallað um stjórnmál í mínum störfum og jafnframt því fengist við stjórnun stéttarfélags og stórs vinnustaðar. Ég kann þetta.”