Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Rjúfum þennan hring
Mánudagur 16. október 2017 kl. 05:00

Rjúfum þennan hring

-sem séreignastefnan hefur sett okkur í

Öll viljum við búa í öruggu húsnæði. Til þess að það geti gerst þurfum við að kaupa okkur fasteign. Eða svo er okkur sagt. Ég vil leyfa mér að draga það í efa, ég tel að við þurfum heldur viðhorfsbreytingu þegar kemur að húsnæðismálum á Íslandi. Það þarf að gefa okkur aukið frelsi til að velja hvernig við viljum haga okkar eigin málum þegar kemur að þessum efnum. Í dag er það frelsi ekki til staðar. Það búa 3 unglingar á mínu heimili og einhvern daginn munu þeir vilja flytja úr foreldrahúsum. Ég vil að þeir hafi frelsi til að velja hvernig þeir vilja hafa sitt heimili og ég vil að þeir geti búið sér heimili. Ég vil að þeir hafi valfrelsi um sitt búsetuform. Ég treysti þeim eins og öðru fólki, til að ákveða hvað er þeim fyrir bestu. Þeim á ekki að þykja það sjálfsagt mál að að skuldbinda sig lánastofnum til 25 eða 45 ára til þess að geta búið sér heimili. Þeir mega það en eiga ekki að þurfa þess. Í flestum löndum Vestur-Evrópu er leigumarkaður stór hluti húsnæðiskerfisins. Þar er leigumarkaður með ýmsu sniði, sumir húsnæðiskostir eru á hinum almenna leigumarkaði, aðrir eru reknir af sveitarfélögunum, sumir eru leiguréttaríbúðir á vegum hinna ýmsu stofnanna sem eru rekin án hagnaðardrifinna sjónarmiða (NFP) og fleira mætti upp telja. Þar er litið á það sem lögboðna skyldu ríkis og sveitarfélaga að allir hafi öruggt húsaskjól og svo á einnig að vera hér, Ríki og sveitarfélög verða einnig að móta sér langtímastefnu þegar kemur að búsetumöguleikum almennings. Í leigustefnu Pírata segir: Heilbrigður húsnæðismarkaður býður upp á valfrelsi og öruggur leigumarkaður myndi stuðla að stöðugleika. Því skal miða að því að leigumarkaður verði sanngjarn, stöðugur og öruggur. Til þess þarf skýrt og gagnsætt regluverk með innbyggðum hvötum til langtímaleigu, sem tryggir bæði réttindi leigjenda og leigusala. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að stærsta vandamálið núna er skortur á íbúðum, lóðum og iðnaðarmönnum en ekki hvaða búsetuform hentar hverjum og einum. Ég vil því leyfa mér að spyrja: Hvað ef séreignastefnan hefði ekki verið svona ráðandi síðustu tugi ára? Hvað ef hér á landi hefði fyrr verið boðið upp á valkosti aðra en fasteignakaup þegar kemur að því að eignast heimili? Ég ætla að fullyrða að staðan væri allt önnur og betri fyrir okkur almenning. Fasteignaverð væri líklega ekki svona svimandi hátt og verð á leiguhúsnæði væri viðráðanlegt fyrir hinn venjulega launamann. Mig langar að við rjúfum þennan hring sem séreignastefnan hefur sett okkur í sem allra fyrst. Við getum ekki breytt fortíðinni en við getum breytt framtíðinni. Þess vegna vil ég að við förum að hugsa um þetta núna, fyrir framtíð okkar allra. Fanný Þórsdóttir Formaður Pírata á Suðurnesjum. Er í þriðja sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.   
  
Fanný Þórsdóttir
Formaður Pírata á Suðurnesjum.
Er í þriðja sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024