Ritgerðir og rugl um Brunavarnir Suðurnesja
– Kristján Jóhannsson, formaður stjórnar BS skrifar.
Kristinn Jakobsson bæjarfulltrúi framsóknar í Reykjanesbæ hefði getað sparað sér stóru orðin um vinnubrögð stjórnar Brunavarna Suðurnesja, B.S, hefði hann haft fyrir því að kynna sér málið áður en hann ryðst fram með ritgerðum og rugli.
Stjórn B.S. hefur frá því í haust unnið að því að endurskoða rekstur B.S.
Meðal þeirra atriða sem stjórnin skoðaði er yfirvinna og akstursgreiðslur. Rekstur og innkaup. Sú vinna er enn í gangi.
Að bæjarfulltrúi og áheyrnarfulltrúi í Bæjarráði Reykjanesbæjar leyfi sér að koma fram með slíkar fullyrðingar að stjórn B.S. sé umboðslaus í störfum sínum. Hann veit að bæjarráð Reykjanesbæjar hefur fjallað um og samþykkt þessa vinnu. Þessar aðdróttanir eru því rugl úr höfði bæjarfulltrúans.
Áður en ákvörðun var tekin um að óska eftir viðræðum við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, SHS, var rætt við allar bæjarstjórnir eigenda Brunavarna Suðurnesja, sem eru Sveitarfélagið Garður, Sveitarfélagið Vogar og Reykjanesbær. Oddvita bæjarstjórnar Sandgerðis var einnig kynnt málið.
Á grundvelli samþykkis þeirra var óskað eftir viðræðum við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Að halda öðru fram er lygi!
Tilgangur með viðræðunum hefur alltaf verið sá að kanna samlegðaráhrif og hvort unnt sé að halda úti sömu þjónustu og B.S. hefur gert með minni tilkostnaði.
Aldrei hefur það komið til tals innan stjórnar B.S. að hvika frá því að halda úti fullri þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Það eru rangfærslur og útúrsnúningar Kristins að halda því fram að viðræður við SHS um samstarf sé aðför að atvinnustarfssemi svæðisins. Alrangt!
Fullyrðingar Kristins í umræddri bókun því eru rangar.
Ákvörðun um hvað skal gera í framhaldinu verður tekin af eigendum B.S þegar upplýsingar og staðreyndir liggja á borðinu.
Sé ekki rætt um hlutina og ólík sjónarmið skoðuð verður ómögulegt að taka upplýsta ákvörðun.
Kristinn veit betur en að halda því fram að einhverjar annarlegar hvatir liggi að baki þessari vinnu.
Kristján Jóhannsson
formaður stjórnar Brunavarna Suðurnesja.